„Tími kominn á breytingar og við erum með plan“

Formaður, þingmenn og frambjóðendur Samfylkingarinnar kynntu afrakstur sex mánaða málefnastarfs í húsnæðis- og kjaramálum fyrir utan verslun Bónuss á Egilsstöðum síðdegis í gær. Formaðurinn segir afar brýnt að grípa til aðgerða til hjálpar heimilum landsins.

Áætlunin ber nafnið Framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum og kemur í kjölfar tveggja annarra sértækra áætlanna flokksins í heilbrigðis- og öldrunarmálum annars vegar og atvinnu- og samgöngumálum hins vegar. Áætlanirnar afrakstur fjölda funda sem haldnir hafa verið víða um landið.

Hvað kjaramál varðar skal ná stjórn á fjármálum ríkisins. Það skal meðal annars gert með lagabreytingum á lögum um opinber fjármál og taka upp stöðugleikareglu um jafnvægi tekna og útgjalda. Skerpa á ábyrgð og gæðakröfum með nýjum lögum um opinberar fjárfestingar auk þess sem auka þarf jafnræði í skattheimtu

Komist flokkurinn í stjórn skal grípa strax til bráðaaðgerða til hjálpar heimilum landsins. Þannig skal til dæmis taka á útleigu íbúða í skammtímaleigu hjá aðilum á borð við AirBnb, takmarka gististarfsemi við samþykkt atvinnuhúsnæði og heimila sveitarfélögum að setja á tómthússkatt standi íbúðir auðar lunga ársins. Þá skal og skapa hvata til að breyta vannýttu atvinnuhúsnæði í íbúðir.

Tillit tekið til landsbyggðarinnar

Aðspurð um hvort húsnæðistillögurnar hafi verið lagðar fram bæði með íbúa landsbyggðarinnar og höfuðborgarbúa í huga segir Kristrún Frostadóttir svo sannarlega vera. 

„Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja að við getum farið í uppbyggingu á fjölbreyttu leiguhúsnæði um allt land. Leigumarkaðurinn er til vandræða og ekki síst úti á landi. Aðgangur að fjármagni í slíkt húsnæði hefur verið takmarkaður. Þess vegna tölum við um aðgerðir sem auka framlög bæði ríkisins og sveitarfélaga til að byggja undir leigumarkaðinn. Við erum að tala um að veita óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum 60% afslátt af virðisaukaskatti. Við erum líka að tala um að breyta húsnæðisstuðningi sem sveitarfélögin eru með til að auðvelda fólki að vera á leigumarkaði. Við ætlum að styrkja frekar hlutdeildarlánin svo þau virki betur úti á landi og hugsanlega að veita slík lán til byggingaraðila á meðan íbúð er á framkvæmdastigi. Það gæti vel nýst fólki í dreifðari byggðunum þar sem byggingakostnaður er mjög hár. Með þeim hætti fær byggingaraðilinn lánið sem svo færist yfir á þann aðila sem kaupir.“

Þensla hefur áhrif á alla landsmenn

Kristrún bendir á að sú mikla þensla sem sé til staðar á höfuðborgarsvæðinu og stærri þéttbýlum landsins hafi bein áhrif á öll heimili í landinu. Sú þensla leki yfir í verðbólgu og hækki vaxtastig sem snerti alla hvar sem þeir búa.

„Þannig að aðgerðir eins og til dæmis að taka harðar á AirBnb og allri braskvæðingunni á húsnæði draga úr þenslunni sem hefur þau áhrif á vextir allra í landinu fari lækkandi. Fólk má auðvitað áfram leigja út íbúðir sínar en það verður óheimilt að hafa það sem atvinnustarfsemi. Svo ætlum við að heimila sveitarstjórnum að leggja á það sem við köllum tómthússkatt. Þannig að ef að það er mikið af íbúðum sem standa auðar, sem er æði algengt úti á landi, þá verði tekið á því.“

Það ekki ýkja algengt að stjórnmálaflokkar kynni tiltekna stefnu sína úti á landi en það gerðist á Egilsstöðum í gær þegar Samfylkingin kynnti stefnu sína í húsnæðis- og kjaramálum. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.