Tíu mánaða fangelsi fyrir kannabisræktun

Héraðsdómur Austurlands dæmdi á mánudag tvo karlmenn um þrítugt í 10 mánaða fangelsi hvorn fyrir umfangsmikla kannabisræktun á tveimur stöðum á Austurlandi. Hluti refsingar þeirra er skilorðsbundin.

Mennirnir voru handteknir ásamt sambýliskonum sínum sama dag og gerðar voru húsleitir í húsnæði í þeirra eigu um miðjan september í fyrra.

Í iðnaðarhúsnæði á Breiðdalsvík fundust 46 kannabisplöntur auk 13 plantna í Mitsubishi Pajero bifreið sem var þar inni. Þær plöntur voru orðnar töluvert stærri en 74 plöntur sem fundust í gámi við heimili annars þeirra í Fellabæ.

Mennirnir voru einnig ákærðir fyrir peningaþvætti upp á 15,1 milljón. Við leitina fundust meðal annars 570 þúsund krónur í Pajero-bifreiðinni. Mestur hluti fjármunanna fannst við yfirferð á bankareikningum þeirra og eiginkonu annars þeirra. Sambýliskonur þeirra voru ákærðar í byrjun en þær ákærur felldar niður þegar málið var komið á rekspöl.

Í dóminum kemur fram að mennirnir tveir hafi við ítrekaðar lögregluyfirheyrslur játað að hafa staðið saman að ræktuninni um nokkurra mánaða skeið og selt nothæfar plöntur úr ræktuninni. Ágóðann hafi þeir nýtt í eigin þágu og til að greiða skuldir sínar.

Hvor mannanna var dæmdur í 10 mánaða fangelsi en rétt þótti að skilorðsbinda átta þeirra til tveggja ára með tilliti til játninga þeirra og sýndrar iðrunar.

Þá var þeim gert að sæta upptöku á samanlagt um 1,4 milljónum króna, þar af 667 þúsund krónum sem fundust við húsleitirnar. Afgangurinn var á bankareikningum. Tæki til ræktunarinnar voru einnig gerð upptæk. Við bætist sakarkostnaður upp á hálfa milljón króna auk þess sem annar þarf að greiða lögmanni sínum rúmar 330 þúsund krónur í málflutningskostnað. Málflutningskostnaður verjenda sambýliskvenna þeirra, upp á samanlagt 340 þúsund greiðist úr ríkissjóði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar