Ætla að reisa álkaplaverksmiðju á Reyðarfirði
Fyrirtækið ALUCAB ehf. áformar að reisa álkaplaverksmiðju á Reyðarfirði. Fyrirtækið hefur fengið samþykki bæjaryfirvalda á álversreitnum.
Frá þessu er greint í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Þórður Snorri Óskarsson er framkvæmdastjóri hins nýstofnaða fyrirtækis en hann gegnir jafnframt þeirri stöðu hjá ráðgjafafyrirtækinu Intellecta ehf.
Blaðið hefur eftir Þórði að þessa dagana væri unnið í því að hnýta lausa enda. Ekki væri hægt að greina frá vinnunni að svo stöddu en tilkynningar væri að vænta eftir um mánuð.
Kristján Börkur Einarsson er stjórnarformaður og meðstjórnendur Einar Þór Bjarnason og Haraldur Jóhannsson, auk Þórðar Snorra. Kristján og Einar vinna einnig hjá Intellecta. Allir eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.