Töldu mikilvægt að tryggja verndun Hellisfjarðar

Kaup ríkisins á jörðinni Hellisfirði, í samnefndum firði við hlið Norðfjarðar, er hluti af áformum um vernd Gerpissvæðisins og óbyggðra svæða. Í firðinum sé að finna fágætt náttúrufar sem fengið hafi að þróast án álags frá manninum.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Austurfréttar. Jörðin var auglýst til sölu fyrir ár og keypt af þýskum athafnamanni. Sá fundaði með sveitarfélaginu Fjarðabyggð í byrjun árs og kynnti þar uppbyggingaráform sín. Þau fólust meðal annars í fiskirækt í Hellisfjarðará.

Af þeim verður hins vegar ekki þar sem ríkið ákvað þann 11. mars síðastliðinn að nýta sér forkaupsrétt, eins og RÚV greindi frá í gær. Ákvörðunin byggði á ósk frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Jörðin er innan Gerpissvæðisins sem er á náttúruminjaskrá. Samkvæmt lögum um náttúruvernd hefur ríkissjóður forkaupsrétt að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá.

Erindi umhverfisráðuneytisins byggði meðal annars á umsögnum frá Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands um hvort rétt væri að nýta forkaupsréttinn. Báðar stofnanirnar töldu svæðið einstakt og mikilvægt að það njóti verndar. Þær töldu rétt að nýta forkaupsréttinn í því skyni að friðlýsa og vernda svæðið.

Í erindinu kemur einnig fram að um sé að ræða óbyggt víðerni sem nær yfir allan Hellisfjörð þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum. Svæðið sé mjög viðkvæmt fyrir allri röskun.

Gróðurfar sé sérstakt og þar vaxa sjaldgæfar plöntutegundir, sumar í útrýmingarhættu. Mikilvægt sé að tryggja vernd óbyggðra svæða sem þessara sem séu orðin fágæt á heimsvísu.

Hellisfjarðarjörðin er um 1.900 hektarar af stærð. Fara verður á bát eða fótgangandi í fjörðinn því þangað hefur aldrei verið gerður bílvegur. Kaupverðið er 40 milljónir króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar