Töluverð uppstokkun skólastjórnenda í grunnskólum
Einir þrír nýir skólastjórar tóku við stjórnartaumum í grunnskólum Austurlands þetta skólaár í viðbót við einn nýjan aðstoðarskólastjóra. Ágætlega tókst að manna kennarastöður skólanna nú en sem fyrr er töluvert af ófagmenntuðu fólki.
Nýtt skólaár grunnskóla Austurlands alls staðar komið vel á veg og allnokkrir skólanna reyna að hefja haustönnina með eins miklu útinámi og veður og vindar leyfa á þessum árstíma.
Breytingar víða
Nokkur uppstokkun hefur orðið á skólastjórnendum en einir þrír skólar státa nú af nýjum skólastjórum. Þeir eru Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar þar sem sjálfur stjórnandi fræðslumála og skólaþjónustu Fjarðabyggðar, Anna Marín Þórarinsdóttir bætti skólastjórastöðunni við þar sem ekki tókst að manna þá stöðu fyrir veturinn. Rúnar Sigríksson stýrir Djúpavogsskóla þennan veturinn en hann leysir Þorbjörgu Sandholt af sem er í leyfi. Þá settist Viðar Jónsson í skólastjórastól Egilsstaðaskóla auk þess sem Svava Gerður Magnúsdóttir tók við stöðu aðstoðarskólastjóra Reyðarfjarðarskóla.
Samkvæmt upplýsingum frá bæði Önnu Marín, stjórnanda fræðslumála hjá Fjarðabyggð, og Sigurbjörgu Kristjánsdóttir, fræðslustjóra Múlaþings, tókst þokkalega vel að manna kennarastöður skólanna en áfram er töluverður fjöldi leiðbeinanda við kennslu sem ekki hafa formleg réttindi kennara. Það verið raunin mörg síðastliðin ár eins og víðast hvar á landsbyggðinni almennt.
Fjölgar í Múlaþingi en fækkar í Fjarðabyggð
Múlaþingsmegin fjölgar grunnskólanemendum lítillega milli ára. Alls sitja 687 nemendur á grunnskólabekk í sveitarfélaginu þennan veturinn en í grunnskólum Fjarðabyggðar fækkar nemendum heilt yfir en fækkunina má einungis rekja til Nesskóla í Neskaupstað. Í öðrum skólum fjölgar lítillega eða fjöldinn stendur í stað milli ára. Í Fjarðabyggð er nemendafjöldinn þetta haustið alls 675 einstaklingar sem eru 26 færri en hófu nám síðasta haust.