Þörf er á þremur sálfræðingum við Skólaskrifstofu Austurlands

Biðlistar eftir sálfræðiþjónustu á svæði Skólaskrifstofu Austurlands eru langir. Forstöðumaður skrifstofunnar segir að líklega verði brugðist við með tímabundinni, aðkeyptri þjónustu til styttingar biðlista.



Skólaskrifstofa Austurlands er byggðasamlag átta sveitarfélaga á Austurlandi frá Vopnafirði í norðri til Djúpavogshrepps í suðri. Nemendur á svæði skrifstofunnar eru um 1500 í 15 grunnskólum og um 600 börn í jafnmörgum leikskólum.

Þeir tveir sálfræðingar sem hafa starfað hjá Skólaskrifstofunni eru hættir og búið er að ráða inn einn sálfræðing í þeirra stað. „Stöðurnar voru auglýstar og bárust tvær umsóknir frá nýútskrifuðum sálfræðingum og tvær umsóknir frá fyrirtækjum sem vilja veita þjónustu í verktöku. Annar umsækjandinn dró síðan umsóknina til baka. Forstöðumaður hefur boðið hinum umsækjandanum starf. Áfram verður unnið að ráðningarmálum vegna sálfræðiþjónustu,“ segir Sigurbjörn Marinósson, forstöðumaður Skólaskrifstofu Austurlands.

Samverkandi þættir skýra ástandið
Sigurbjörn segir marga samverkandi þætti skýra þessa erfiðu stöðu. „Fyrst og fremst mikil og aukin eftirspurn eftir þjónustu. Skólaskrifstofan hefur haft tvö stöðugildi undafarin ár en það hefur ekki dugað til og því ekki tekist að halda í horfinu. Aðrir þættir sem hafa einnig haft áhrif eru til dæmis fæðingarorlof og takmarkað aðgengi að sálfræðiþjónustu á Austurlandi hjá öðrum stofnunum.“

Hvernig verður brugðist við vandanum? „Það er ekki ákveðið enn, en stjórnin hefur áður veitt tímabundnar heimildir til aðkeyptrar þjónustu til styttingar á biðlista og biðtíma eftir þjónustu,“ segir Sigurbjörn.

Efling faghóps nauðsynleg
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs bókaði tillögu á fundi sínum í apríl til stjórnar Skólaskrifstofu Austurlands um hvort ekki sé rétt efla þann hóp fagfólks sem þar starfar til að tryggja þjónustu og auka fjölbreytni í stuðningi við starfsfólk skólanna. Bókunin var rædd og voru fundarmenn sammála efni hennar og mikilvægi forvarna og gildi þeirra í skólastarfi. Verður eitthvað unnið með þessa tillögu og þá á hvaða hátt?

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að hún verði tekin til umræðu í stjórn Skólaskrifstofunnar, en hún hefur verið kynnt í framkvæmdarstjórn. Á þessari stundu er erfitt að segja til um niðurstöðuna en ég hef gert grein fyrir þörfinni á þriðja stöðugildi sálfræðings við skrifstofuna, ásamt því að efla fagfólk innan skóla enn frekar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.