Trufla álverin landsnetið og valda skaða á raftækjum?

alver_eldur_0004_web.jpg
Skemmdir á rafmagnstækjum virðast hafa aukist vegna tíðra rafmagnssveiflna. Bilanir í búnaði stóriðju auka sveiflurnar og koma harkalega niður á almennum notendum.

Þessu heldur Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps og forstöðumaður íþróttamiðstöðvar hreppsins, fram í bloggfærslu sem hann skrifaði fyrir helgi.

„Sveiflur í rafmagni eru að verða tíðari með hverju árinu og fjöldi skemmdra tækja og rafbúnaðar ýmiss konar hefur margfaldast á síðustu árum vegna þessa. 

Meginástæða þessara tjóna er tilkomin vegna þess að Álverin sem taka orðið 85% af allri nýtanlegri orku eru vegna tíðra bilana að trufla mjög landsnetið og afleiðingarnar eru mikið högg á kerfið og endurteknar sveiflur sem valda tjóni,“ skrifar Andrés.

Hann segir að tjón íþróttamiðstöðvarinnar sé komið í milljónir króna vegna þessa. „Eftir síðustu rafmagnssveiflur sem urðu hér fyrir skemmstu má segja að bara tjónið af því ásamt meðtöldu tjóni vegna rafmagnsbilana 2010 á mínum vinnustað sé hátt í tvær milljónir og svo virðist sem álverin séu algerlega stikkfrí er varðar bótaskyldu.“

Austurfrétt sendi Landsneti, sem sér um dreifikerfið, ósk um viðbrögð við fullyrðingum Andrésar fyrir helgi. Þau hafa ekki enn borist. 
 
Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær kom fram að töluvert tjón hafi orðið hjá bæði Hitaveitu Egilsstaða og Fella og Hótel Héraði vegna rafmagnssveiflna. 

„Í gegnum árin er þetta orðið svakalega mikið tjón. Það er örugglega sjö eða átta sinnum á ári sem við erum að fá svona trakteringar,“ sagði Guðmundur Davíðsson, hitaveitustjóri.

„Ég vil að RARIK og Landsnet komi okkur upp almennilegu neti hérna það sé ekki þessi sveiflu síendurtekið. Það virðist ekki mega hósta spennistöð á Suður- eða Vesturlandi þá fer straumur af Austurlandinu.“
 
 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.