Tryggja að starfsemi HEF raskist ekki
Starfsmönnum HEF hefur verið skipt upp á nokkrar starfsstöðvar til að tryggja að starfsemi veitna Fljótsdalshéraðs haldist óskert í heimsfaraldri Covid-19 veirunnar. Ekki er talið að veiran smitist með drykkjarvatni.„Við erum með fimm starfsmenn. Þeir hafa dreift sér á fjórar starfsstöðvar, þar af er einn með heimastarfsstöð.
Við reynum líka að takmarka eins og hægt er samgang og nærveru. Til annarra ráðstafana hefur ekki verið gripið, enda ekki talin þörf á því,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri.
HEF rekur hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði. Veiturnar eru taldar afar mikilvægar fyrir samfélagið þar og þess vegna er starfsmennirnir aðskildir. „Þetta gengur út á að hafa aðra tiltæka ef einn veikist þannig að sem minnst truflun verði á rekstri veitnanna.“
Sérfræðingar á vegum íslenskra veitustofnana hafa síðustu daga verið að rýna skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunnar um útbreiðslu kórónaveirunnar. Miðað við niðurstöður þeirra eru engar vísbendingar um að veiran berist með skólpi, hvort sem það er hreinsað eða óhreinsað. Engin gögn eru til um líftíma veirunnar í vatni en skýrsluhöfundar telja að hún lifi illa í drykkjarvatni eða skólpi. Þess vegna sé lítil smithætta í drykkjarvatni.
Þess utan segir Aðalsteinn að vatnið á Héraði eigi að vera fyllilega öruggt. „Við höfum aðgang að sérlega góðu og öruggu drykkjarvatni sem afar langsótt er að þessi veira, eða nokkur önnur, geti borist með. Eins má minna á að hitaveituvatnið er neysluhæft.“
Aðspurður segir Aðalsteinn að ekki verði gripið til sérstakra tæknilegra ráðstafana hjá HEF. Þó verði gát höfð á gagnvart smiti við vinnu og viðhald á fráveitu, þótt litlar líkur sé taldar á að smit geti borist eftir henni.