Þétt dagskrá ráðherra á Austurlandi á morgun

althingi_roskva.jpg

Reglubundinn fundur ríkisstjórnarinnar verður haldinn á Egilsstöðum á morgun. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar nýta ferðalagið í fleiri fundi og hitta bæði sveitarstjórnarfólk og almenning.

 

Fundarstaður er Gistihúsið á Egilsstöðum og hefst fundurinn að venju klukkan 09:00. Þetta er fyrsti fundur ríkisstjórnarinnar á Austurlandi, en áður hefur hún haldið fundi utan höfuðborgarinnar, á Ísafirði, Akureyri og í Reykjanesbæ.

Meðal þess sem tekið verður fyrir á fundinum eru byggðamál og málefni tengd Austurlandi. Að loknum ríkisstjórnarfundinum hitta ráðherrarnir sveitarstjórnarfólk á Austurlandi á sérstökum fundi.

Efni ríkisstjórnarfundarins og fundar ráðherranna með sveitarstjórnarfólkinu verður kynnt blaða- og fréttamönnum á fundarstað klukkan 11:30 jafnframt því sem undirritun samninga fer fram. 

Klukkan 13:00 verður haldinn á Reyðarfirði stofnfundur sameinaðra stoðstofnana á Austurlandi (AST), en þær vinna að þróun og eflingu atvinnulífs og samfélags á Austurlandi. Ráðherrar sitja fundinn og mun Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ávarpa fundargesti jafnframt því sem lögð verður fram tillaga að samþykktum AST og fleira. 

Klukkan 15:00 síðdegis verður haldið málþing um sameiningu stoðstofnana, sóknaráætlanir landshluta og fleira. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun ávarpa málþingið. Á sama tíma er gert ráð fyrir að aðrir ráðherrar heimsæki fjölmenna vinnustaði á Austurlandi.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, sækja loks opinn fund um sjávarútvegsmál og stöðu Norðfjarðarganga í Nesskóla í Neskaupstað klukkan 19:30. Gert er ráð fyrir að þingmenn kjördæmisins sæki einnig fundinn.

Tilefni fundarins er frumvarp ríkisstjórnarinnar til laga um stjórn fiskveiða og frumvarp til laga um veiðileyfagjöld ásamt skýrslu KPMG um áhrif þessara frumvarpa á samfélagið í Fjarðabyggð.

Dagskrá:

I. Fiskveiðistjórnunarkerfið
        Framsögur:
        Páll Björgvin Guðmundsson bæjarstjóri
        Steingrímur J Sigfússon sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
        Gunnþór Ingvason Útvegsmannafélag Austurlands
        Umræður
II. Staða mála vegna nýrra Norðfjarðarganga
         Framsaga:  Jón Björn Hákonarson forseti bæjarstjórnar
         Umræður
Fundarstjóri er Smári Geirsson.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.