„Þú átt að geta farið út svífandi á skýi“

„Mig hefur lengi dreymt um að stofna mitt eigið fyrirtæki, en ég hef meira og minna unnið við afgreiðslu- og þjónustustörf frá því ég var unglingur,“ segir Reyðfirðingurinn Vigdís Hallgrímsdóttir, sem lætur drauminn rætast með því að opna verslunina Gallerí 730 í Molanum á Reyðarfirði þann 1. september næstkomandi.“


Ár er síðan fataverslunin Pex lokaði, en hún var á sama stað og Gallerí 730 verður. „Ég var alltaf með fastmótaða hugmynd um að bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval, ekki bara fatnað,“ segir Vigdís, en hún verður einnig með snyrtivörur og gjafavöru.

„Ég ætla að vera með „beisik“ fatnað og ný og spennandi merki í snyrtivörum á borð við Glam Glow og Becca. Einnig verð ég með vinsælu heimilislínurnar frá House Doctor og Meraki svo eitthvað sé nefnt. Ég vil bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval en það er allt annað fyrir konur að geta komið og skoðað og prufað snyrtivörur heldur en að panta þær á netinu.

Ég sé Gallerí 730 sem lífsstíls- og fagurkeraverslun. Þú átt að geta farið út svífandi á skýi, gert vel við þig og til dæmis keypt dekurvörur fyrir húiðna, gott ilmkerti og hlýja kósí peysu. Ég ætla að byrja smátt og bæta frekar við merkjum síðar í haust þegar ég er búin að lesa markaðinn og átta mig á því hvað virkar. Ég er að henda mér út í djúpu laugina og er alveg meðvituð um það.“

Sogæðanudd með þrýstistígvéli í fyrsta skipti á Austurlandi

Gallerí 730 verður ekki aðeins verslun, heldur mun Vigdís einnig vera þar með sína aðstöðu, bæði í tenglsum við förðun og neglur. Auk þess ætlar hún að bjóða upp á þjónustu sem ekki hefur áður sést á Austurlandi, sogæðanudd með þrýstistígvéli, í samvinnu við Heilsu og útlit í Reykjavík.

„Það er virkilega spennandi en kom mjög óvænt upp. Sjálf er ég með gigt og er ekki góð í skrokknum og hef því mikið leitað til Söndru Lárusdóttur í Heilsu og útlit þar sem ég hef verið í slíkri meðferð. Þegar ég sagði henni frá mínum áformum spurði hún hvort það væri ekki tilvalið að hafa þetta með og ég ákvað bara að slá til.“

Um er að ræða sogæðanudd með þrýstistígvéli sem nuddar frá iljum og upp í mjöðm. Meðferðin vinnur á sogæðabólgu, appelsínuhúð, bjúg, fótapirringi og vekur upp æðakerfið. „Ef vel gengur getur vel verið að ég verði í ennþá meira samstarfi við Heilsu og útlit og bjóði upp á fjölbreyttari meðferðir.“

„Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri“

Vigdís er menntaður förðunar- og naglafræðingur. Hún lærði förðun árið 2014 en hafði alla tíð fiktað við fagið.

„Ég veit ekki hvernig það æxlaðist, en ég var einhvernvegin alltaf beðin um að farða, greiða, lita og plokka. Einhverntíman endaði ég á því að farða og greiða brúði án þess að hafa nokkra þekkingu eða reynslu, en það bara reddaðist, ég hef alltaf verið með þetta í mér.“

Það var svo þegar tökur bresku þáttaraðarinnar Fortitude voru á Reyðarfirði að boltinn fer að rúlla. „Vinkona mín sem vann við þáttagerðina þótti alveg kjörið að ég hoppaði um borð með þeim, svona fyrst ég var að klára fæðingarorlof. Ég var í ýmsum verkefnum en stóð mig að því að flygjast stanslaust með stelpunum í förðunardeildinni og það heillaði mig ótrúlega mikið. Þegar verkefnið var búið fór ég í Reykjavík Fashion Academy og Mask Make up Academy og tók að mér öll þau verkefni sem buðust, meðal annars í Kvikmyndaskóla Íslands,“ segir Vigdís sem hefur eftir námið kennt förðun og unnið við fjölmargar auglýsingar og kvikmyndir.

„Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, maður er að skapa list alla daga. Þetta er samt ansi harður heimur og maður þarf að hafa virkilega trú á sér til þess að starfa í honum,“ segir Vigdís sem stefnir á að bjóða upp á förðunarnámskeið fyrir hópa í vetur.

„Maður þarf bara að framkvæma“

Vigdís er einstæð fjögurra barna móðir, fædd og uppalin á Reyðarfirði og hefur búið þar mestann part sinnar ævi. Hún hefur þó verið búsett í Grindavík síðustu ár en flutti aftur heim í sumar. Aðspurð að tilurð verslunarinnar segir hún;

„Í ársbyrjun lést faðir tveggja barna minna og það var mikið áfall fyrir alla. Ég sá að ég yrði að finna einhverja leið til þess að koma þeim nær fólkinu sínu hér á Reyðarfirði. Einnig að ég yrði þá að finna mér sjálfri eitthvað að gera og útkoman var að flytja aftur heim og stofna fyrirtæki.“

Síðustu ár hafa verið Vigdísi þung en hún segir nú sé kominn tími til þess að spyrna sér upp frá botninum með nýjum áskorunum. „Maður klífur fjöllin og rennur niður þau aftur. Svo þarf maður bara að halda áfram aftur á brattann og það er það sem ég er að gera í dag. Þetta er búið að vera drullu töff, en lífið er of stutt til þess að velta sér allt of mikið upp úr hlutunum, maður þarf bara að framkvæma.

Þetta hefur verið erfið fæðing sem ég vona að skili sér. Það er frábært fyrir íbúa að hafa búð á svæðinu og geta veitt góða þjónustu. Ég ætla ekki að pína mig á þessari verslun, ef hún gengur ekki þá er það bara þannig en ég er þá í það minnsta búin að lifa drauminn.“

Vildi tengja nafnið Reyðarfirði

Vigdís segir það hafa verið þrautina þyngri að finna nafn á búðina. „Mér datt strax í hug Gallerí 730. Bæði af því að þetta er hálfgert gallerí, vöruúrvalið og þjónustan verður svo fjölbreytt. Ég vildi tengja nafið við staðinn á einhvern hátt og 730 er svo auðvitað póstnúmerið hér á Reyðarfirði. Það verður alltaf minn staður, hvar sem ég verð í heiminum. Nafngiftin hefur þó verið þvílíkur hausverkur, ég er búin að fara með þetta í marga hringi. Ég hef fundið nöfn á fjögur börn og þetta ferli var mun erfiðara ferli en það.“

Allir velkomnir í opnunarteiti
Laugardaginn 1. september verður Gallerí 730 opnuð með pomp og prakt. „Ég ætla að vera með opnunarteiti þar sem ég mun bjóða upp á léttar veitingar, ljúfa tóna, afslætti, notarlegt andrúmsloft og vonast til þess að sjá sem allra flesta.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar