Tunguvegur betri kostur en Borgarfjarðarvegur næstu mánuði

„Þetta er bara langur grófur leiðindaspotti og því fleiri sem hér fara um því lengur verðum við að klára verkið,“ segir Viðar Hauksson, yfirverkstjóri Héraðsverks á Borgarfjarðarvegi milli Egilsstaða og Borgarfjarðar eystra.

Hans teymi vinnur nú að því ljúka lagningu bundins slitlags á síðasta spottann á veginum en sá er alls fimmtán kílómetra langur en vinnan gengur hægt sökum töluverðrar umferðar þá leiðina sem mun aðeins aukast verulega á næstu mánuðum. Til að minnka umferðina eins og kostur er beinir Vegagerðin þeim tilmælum til vegfarenda að nota frekar veginn um Hróarstungu en Borgarfjarðarveg en endurbætur á þeim fyrrnefnda standa nú yfir af þessu tilefni.

Viðar segir þann vegkafla sem nú sé unnið að afar grófan sem geti valdið vegfarendum með hjólhýsi eða á húsbílum vandræðum og því sé eins mikilli umferð og hægt er beint um Tunguveg öllum í hag.

„Þessi kafli sem við erum að vinna er mjög langur og við þurfum nánast að stöðva vinnu meðan umferð fer þar um sem. Tunguvegur er aðeins lengri reyndar en hann er miklu betri og sökum þess að aka þarf mjög hægt um framkvæmdasvæðið er lítil spurning að vegurinn um Tungu er líklega fljótfarnari líka.“

Áætluð verklok á Borgarfjarðarvegi er í haust en nákvæmlega hvenær ræðst töluvert af umferðarþunganum. Þá segir Viðar ekki útilokað að gripið verði til þess ráðs að vinna að næturlagi ef annað þrýtur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar