Tvær þotur komu til Egilsstaða í stað Keflavíkur
Þotur frá Wizz Air og Icelandair lentu á Egilsstaðaflugvelli í gærkvöldi þar sem lokað var hægt að lenda í Keflavík. Farþegar Icelandair vélarinnar gistu eystra í nótt. Annasamt hefur verið á flugvellinum undanfarinn sólarhring.Flugvél Wizz Air lenti á Egilsstöðum rétt fyrir klukkan hálf níu í gærkvöldi. Vélin var á leið til Riga og tók einn hring yfir Selfossi áður en henni var snúið austur. Farþegar hennar fóru ekki frá borði heldur flaug vélin suður til Keflavíkur rétt rúmlega hálf tólf í gærkvöldi.
Vél Icelandair fór í loftið frá Berlín um þremur tímum á eftir áætlun. Hún hringsólaði í rúman hálftíma suður af Reykjanesi og reyndi eitt aðflug áður en farið var austur. Þar var lent um kortér fyrir níu í gærkvöldi. Farþegar úr vélinni, um 160 talsins, gistu á hótelum á Egilsstöðum í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair gekk mjög vel að koma farþegum hennar í gistingu.
Ný áhöfn kom austur með áætlunarvél í morgun og tók við vélinni. Vélin flaug svo aftur frá Egilsstöðum klukkan nú klukkan ellefu. Áætlað var að hún lenti í Keflavík rétt fyrir hádegi.
Annasamt hefur verið á flugvellinum á Egilsstöðum undanfarinn sólarhring. Í gærmorgun fór þaðan þota frá Icelandair með ríflega 170 farþega á vegum ferðaskrifstofu til Tenerifa. Þrátt fyrir óveður á höfuðborgarsvæðinu var flogið austur í gær. Kvöldvélin fór þó suður tveimur tímum seinna en áætlað var. Eins yfirgaf einkaþota sem var á vellinum um helgina svæðið.
Þá var og örtröð á vellinum klukkan níu í morgun þegar áætlunarflugvél Air Iceland Connect var að búa sig til brottfarar. Nokkrum mínútum fyrr lenti þyrla Landhelgisgæslunnar og skömmu áður lenti sjúkraflugvél frá Mýflugi. Berlínarþota Icelandair var þá enn á vellinum.