Tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot í jólaboði

Karlmaður var í síðustu viku sekur fundinn fyrir héraðsdómstól Austurlands um gróft og alvarlegt kynferðisbrot gagnvart ungri konu í jólaboði fyrirtækis í desember á síðasta ári. Hlaut maðurinn tveggja ára fangelsi og skal greiða miskabætur.

Konan kom grátandi og óttaslegin á sjúkrahúsið í Neskaupstað aðfararnótt 16. desember í fyrra en þá hafði verið brotið á henni fyrr um nóttina á hótelherbergi austanlands af ókunnum erlendum aðila. Hafi hún vaknað við að maðurinn hafi verið að hafa kynferðismök við hana en hún lítt getað spornað gegn manninum sökum ölvunar og svefndrunga. Hafði maðurinn sáðlát í rúminu meðan hún hafi þóst vera sofandi.

Hélt konan rakleiðis inn á klósett hótelherbergisins með síma sinn þegar maðurinn fór og hringdi í vin sinn sem ráðlagði henni að hafa samstundis samband við lögreglu sem og hún gerði. Í kjölfarið var haldið á sjúkrahúsið til skoðunar.

Breytti framburði

Sjálfur neitaði maðurinn sök en hann hefur aldrei áður komið við sögu lögreglu. Hann breytti þó framburði sínum töluvert meðan á rannsókn stóð sem þótti afar ótrúverðugt af hálfu dómsins. Framburður mannsins hafi verið í algjörri andstöðu við framburð brotaþolans.

Í dómsorði segir að það sé „mat dómsins að frásögn brotaþola hafi í öllum aðalatriðum, og þá í ljósi lýstra aðstæðna, verið einlæg, varfærin og trúverðug. [...] Að ofangreindu virtu er að mati dómsins ekki varhugavert að leggja frásögn brotaþola til grundvallar um atvik máls í öllum aðalatriðum. [...] Hefur ákærði enga haldbæra og trúverðuga skýringu gefið á hinum sýnilegu lífssýnum sem vísað hefur verið til í rannsóknargögnum lögreglu eða á rannsóknarniðurstöðunni. Hefur ákærði að mati dómsins verið ótrúverðugur í hinum breytta framburði sínum og að auki eru skýringar hans harla ósennilegar í ljósi sérfræðigagnanna.“

Konan gerði kröfu um miskabætur upp á 4 milljónir króna vegna verulegri tilfinningaröskun og andlegum þjáningum vegna atviksins en dómarinn taldi bætur upp á 2,2 milljónir nægilegar. Hinn dæmdi greiðir að auki allan sakarkostnað sem í heild nam 5,2 milljónum króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.