Tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt tvítugan karlmann í tveggja ára ára fangelsi fyrir nauðgun og kynferðislega áreitni. Maðurinn hafið áður hlotið dóm fyrir að hafa kjálkabrotið mann þann sama dag.

Brotin áttu sér öll stað á heimili konunnar um miðjan nóvember, að loknu eftirpartýi sem þar var haldið.

Í dóminum kemur fram að eftir lokun skemmtistaðar í bænum hafi konan haldið heim til sín áfram litlum hópi vina. Ákærði hafi einnig komið þangað en verið vísað á brott með þeim orðum að ekki stæði til að halda neitt eftirpartý.

Það hafi síðar breyst þegar vinir konunnar tóku að bjóða gestum. Ákærði mætti einnig og fór ekki á brott þótt húsráðandi bæði hann um það. Hún taldi samt ekki ástæðu til að aðhafast frekar. Þau þekktust lítið sem ekkert, en höfðu verið saman í grunnskóla í stuttan tíma.

Þegar líða fór á morguninn fóru veislugestir að týnast á brott. Um klukkan hálf níu var lögregla hins vegar kölluð að húsinu eftir að ákærði hafði kýlt annan mann sem þar var hnefahöggi í andlitið með þeim afleiðingum að sá kjálkabrotnaði og var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Fyrir það brot var ákærði dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi í lok júní í fyrra.

Eftir að lögreglan fór af vettvangi höfðu þeir gestir sem eftir voru sig á brott, utan konunnar og vinkonu hennar, vinar þeirra sem var sofandi á sófa í húsinu og ákærða.

Nýtti sér svefndrunga og ölvunarástand

Fram kemur í dóminum að ákærði hafi eftir þetta farið í herbergið þar sem stúlkurnar sváfu í tvíbreiðu rúmi og áreitt hana með að sleikja og sjúga brjóst hennar. Framburður stúlknanna tveggja fyrir dómi var nokkuð samhljóma um að þær hefðu orðið varar við manninn krjúpandi við rúmið og hann hann verið að athafna sig við húsráðanda. Sú sagðist lítið hafa getað gert vegna svefndrunga, en reynt að reka manninn út. Hin sagðist ekki hafa þorað að hreyfa sig af ótta en reynt að klípa í vinkonu sína til að vekja hana.

Þær læstu að sér í herberginu eftir þetta. Vinkonunni varð þó ekki svefnsamt eftir þetta og fór skömmu síðar heim til sín.

Um hádegisbil vaknaði húsráðandi með manninn við hlið sér í rúminu og hafði hann þá farið með fingur inn í leggöng hennar auk þess sem hann hafi verið að kyssa hana. Hún segir hann hafa stokkið frá og þóst sofandi er hann varð þess var að hún vaknaði. Hún náði hins vegar valdi á seðlaveski hans. Hann fékkst til að koma sér út gegn því að fá veskið aftur afhent.

Þegar loks hafðist að koma ákærða út úr húsinu vakti hún vin sinn sem hafði sofið á sófanum og sagt honum stuttlega frá því sem gerðist. Síðar um daginn leitaði hún til vinkonunnar og sagði henni frá því sem gerst hafði. Þær fóru saman til lögreglunnar daginn eftir. Konan hlaut ekki líkamlegan skaða en andlegt áfall hennar varð þyngra en hún hugði í fyrstu.

Trúverðugur framburður konunnar

Maðurinn neitað ætíð sök og lífsýni, sem fundust í laki úr rúminu, reyndust ekki úr honum. Hann neitaði reyndar upphaflega að veita lífsýni en var skyldaður til þess eftir úrskurð dómara. Hár sem fundust í rúminu voru ekki greind. Í dóminum er bent á að sérfræðigögn lögreglunnar hafi ekki stutt við málatilbúnað, þvert á móti hafi þau frekar ýtt undir framburð mannsins.

Dómari taldi hins vegar framburð hans um atburði næturinnar óljósan og á reiki, meðal annars hefði hann aldrei svarað spurningum um hvernig hann ferðaðist til og frá heimili stúlkunnar um nóttina, en bifreið hans var í heimkeyrslunni þegar lögregla kom þar vegna líkamsárásarinnar.

Dómurinn taldi framburð konunnar hins vegar skilmerkilegan og trúverðugan, auk þess sem hann hefði verið ítarlegur og einlægur á köflum. Hún hefði meðal annars getað lýst seðlaveski og klæðnaði mannsins nokkuð vel. Áhrif atviksins væru studd framburði sálfræðings auk þess sem framburður annarra vitna styddu frekar hennar frásögn.

Við ákvörðun refsingar er litið til þess að maðurinn var ungur, 18 ára gamall, er atvikið átti sér stað, rannsókn málsins dróst á langinn auk þess sem gengið hafi verið gegn þeirri meginreglu að sækja atvik samhliða, en líkamsárásin og nauðgunin urðu sitt hvort sakamálið.

Þó þyngir það refsinguna að maðurinn hafi verið fengið skilorðsbundinn dóm fyrir hnefahöggið. Var hann því dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi. Þá þarf hann að greiða konunni 1,5 milljónir í miskabætur auk tæplega 1,9 milljónar í málskostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar