Tveimur í viðbót batnað eftir covid-19 smit
Fimm þeirra átta sem greinst hafa með covid-19 smit á Austurlandi hafa náð sér eftir veikindi sín. Ekkert nýtt smit hefur greinst í fjórðungnum.Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.
Alls hafa átta smit greinst í faraldrinum eystra, en þó aðeins eitt síðustu tíu daga. Í tilkynningu kemur fram að í dag hafi verið staðfest að tveir til viðbótar af þessum átta hafi náð sér eftir veikindin.
Þeir voru áður þrír, sem þýðir að þrír eru eftir í einangrun vegna smits. Síðast greindist smit á Austurlandi á miðvikudag.
Einn einstaklingur losnaði úr sóttkví síðasta sólarhring en annar bættist við. Eftir sem áður eru því 23 einstaklingar í sóttkví.