Tveir húsbílar út af á Möðrudalsöræfum

Tveir húsbílar fuku út af veginum um Möðrudalsöræfi í miklu hvassviðri þar í gærdag. Veginum var lokað um tíma á meðan versta veðrið gekk yfir. Vegurinn er skemmdur á kafla eftir átökin.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi jókst vindur á Möðrudalsöræfum skyndilega í gær með þeim afleiðingum að tveir húsbílar fuku út af og ultu. Hluti fólksins í bílunum hlaut minniháttar meiðsli og var komið undir læknishendur.

Samkvæmt veðurgögnum hvessti mjög á öræfunum undir hádegi í gær. Á Biskupshálsi mældist 28-29 m/s meðalvindhraði milli klukkan fjögur og fimm í gær og yfir 37 m/s í hviðum. Malbik fauk af veginum þar á kafla, sem og á Mývatnsöræfum. Mold- og sandrok var þar löngum stundum.

Gripið var til þess ráðs að loka veginum um tíma, um klukkan 18-20. Eftir það lægði hratt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar