Tveir íbúafundir í kvöld
Tveir íbúafundir verða haldnir í fjórðungnum í kvöld. Annars vegar verður fjallað um aðalskipulag Vopnafjarðarhrepps, hins vegar gefst íbúum á Eskifirði tækifæri til að koma spurningum til kjörinna fulltrúa í Fjarðabyggð.Fundurinn á Vopnafirði verður haldinn í félagsheimilinu Miklagarði og hefst klukkan 17:30. Fundurinn er liður í endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins.
Fundargestum verður skipt upp í vinnuhópa sem meðal annars munu ræða um loftslagsmál, landbúnað og skipulag, orkuöflun, nýtingu og verndun náttúru og atvinnumál.
Á Eskifirði standa íbúasamtök staðarins fyrir fundi í Valhöll sem hefst klukkan 20:30. Þegar hefur verið lagður fram listi með ríflega 20 spurningum sem svarað verður á fundinum. Á listanum eru meðal annars stækkun leikskólans, eignaskiptasamningur Fjarðabyggðar við Eskju, nýtt tjaldsvæði, íþróttaaðstaða, sorphirðumál og skipulagsmál.