Tvennt látið í Neskaupstað og einn handtekinn

Lögreglan á Austurlandi rannsakar nú alvarlegt atvik í heimahúsi á Norðfirði. Tveir einstaklingar hafa verið úrskurðaðir látnir. Einn verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins. Ekki er grunur um að fleiri tengist málinu.


RÚV segir eldri hjón hafa fundist látin í heimahúsi í nótt. Eins manns hafi síðan verið leitað sem hafi tekið bíl þeirra. Sá handtekni hafi verið í Reykjavík. Lögregluaðgerð var við Snorrabraut og Eiríksgötu í Reykjavík seinni partinn.

Vísir greinir frá því að maður sem tengist málinu hafi verið handtekinn í Reykjavík á þriðja tímanum. Honum var veitt eftirför af lögreglu eftir að sást til bíls sem hann ók í austurhluta borgarinnar. Haft er eftir aðstoðarlögreglustjóra að eftirförin hafi verið í rólegheitum og án láta. Sérsveitin hafi þó verið kölluð til.

Hluta Strandgötu, sem liggur í gegnum Neskaupstað meðfram sjónum, var lokað um klukkan eitt í dag. Þar hefur verið mikil aðgerð í gangi með fimm lögreglubílum og sjúkrabíl. Tæknideild kom austur upp úr klukkan þrjú og var ekið í forgangsakstri frá Egilsstöðum, eftir því sem Austurfrétt kemst næst.

Norðfirðingar sem Austurfrétt hefur rætt við eru harmi slegnir. Einkum í ljósi þess að samfélagið þar er í áfalli eftir banaslys sem tengist bænum fyrr í vikunni. Í upphafi fundar bæjarstjórnar Fjarðabyggðar klukkan 16:00 sagði Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, að hræðilegir, sorglegir og erfiðir atburðir hefðu átt sér stað í bæjarfélaginu. Hugur bæjarstjórnar væri hjá öllum þeim sem tengdust þessum atburðum sem og íbúum. Fundurinn stóð í rúmar tvær mínútur þar sem afgreiddar voru fundargerðir frá fundum nefnda sem haldnir voru í sumarleyfi bæjarstjórnar.

Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér klukkan rúmlega þrjú í dag tilkynningu um voveiflegan atburð í Neskaupstað. Þar kom fram að ekki yrðu veittar nánari upplýsingar að svo stöddu. Von er á annarri tilkynningu frá henni undir kvöldmat.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar