Tvöfalt meiri makríll unninn til manneldis á Vopnafirði
Vinnsla og frysting á makrílafurðum til manneldis hjá uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði hefur meira en tvöfaldast nú á vertíðinni í samanburði við vertíðina í fyrra. Búið er að frysta alls tæplega 11.000 tonn af makrílafurðum á Vopnafirði en alla vertíðina í fyrra nam magnið tæplega 5.000 tonnum.
Þetta kemur fram í frétt á vef fyrirtækisins. Þar er haft eftir Magnúsi Róbertssyni, vinnslustjóra HB Granda á Vopnafirði, að sköpum hafi skipt að fá blástursfrysti fyrir vertíðina því án hans hefði ekki verið hægt að vinna stærsta makrílinn til manneldis.
Alls er búið að frysta rúmlega 15.000 tonn af síldar- og makrílafurðum hjá HB Granda á Vopnafirði í sumar og haust. Skipin hafa undanfarna daga snúið sér að síldveiðum undan Austfjörðum.