Tvö staðfest smit á Austurlandi
Tveir einstaklingar hafa verið greindir með covid-19 smit á Austurlandi. Á annað hundrað manns eru í sóttkví. Gripið hefur verið til aðgerða í Egilsstaðaskóla eftir að starfsmaður greindist með smit.Í gær var staðfest að smit hefði greinst hjá starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Austurlands og í dag var staðfest smit hjá starfsmanni Egilsstaðaskóla.
Samkvæmt upplýsingasíðunni covid.is eru tvö staðfest smit á Austurlandi. Í samtali við Austurfrétt staðfesti Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, að það væru umrædd tilfelli.
Seinni einstaklingurinn var í sóttkví þegar hann greindist. Síðustu daga hafa um 60% þeirra sem greinst hafa á landsvísu verið í sóttkví þegar þeir fara að sýna einkenni sem síðan eru staðfest. „Þetta gefur okkur von um að sóttvarnaraðgerðir yfirvalda séu að bera árangur,“ segir Guðjón.
Uppruni fyrra smitsins er óljós en unnið er að því að rekja hann. Alls voru sautján settir í sóttkví vegna þess, þar af 14 starfsmenn HSA. Öryggi skjólstæðinga stofnunarinnar á að vera tryggt og búið var að gera ráðstafanir til að bregðast við smiti.
Í tölvupósti frá skólastjóra Egilsstaðaskóla kemur fram að fjórir stafsmenn og tveir nemendur hafi verið settir í sóttkví. Þá hafi samgangur starfsmannsins við nemendur og aðra starfsmenn aðeins verið eftir að hefðbundnum skóladegi var lokið. Fyrirkomulag skólans sé í endurskoðun.
Þá hefur foreldrum verið tilkynnt um frekari takmarkanir á skólastarfi frá og með morgundeginum. Fækkað verður í námshópum og nemendur mæta aðeins annan hvern dag. Nemendur í svokölluðum forgangshópi geta þó mætt hvern dag. Nám nemenda í 7. – 10. bekk verður með óbreyttu sniði.
Forráðamenn eru beðnir um að halda nemendum heima hafi þeir kvef eða flensueinkenni. „Ég vil enn hrósa nemendum, starfsmönnum og foreldrum mikla aðlögunarfærni í öllu þessu ferli,“ segir í tölvupósti Ruthar Magnúsdóttur, skólastjóra.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum á covid.is eru nú 123 einstaklingar á Austurlandi í sóttkví. „Við munum halda áfram að setja fólk í sóttkví. Það er gert til a koma í veg fyrir að smit dreifist í samfélaginu. En vissulega er líklegra að fleiri veikist eftir því sem fleiri eru í sóttkví.“