Tvö útköll björgunarsveita austanlands í nótt
Áhöfn björgunarbátsins Hafbjargar í Neskaupstað kom skipverja á litlum fiskibát til aðstoðar um fimm leytið í morgun en sá hafði slasast illa á fæti og var ófær um að sigla bátnum til hafnar. Var báturinn þá um sextán sjómílur austur af Norðfjarðarhorni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var líka kölluð til og þurfti að hífa manninn í börum um borð í þyrluna af fiskibátnum.
Gekk það allt að óskum að sögn upplýsingarfulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hélt þyrlan áleiðis til Reykjavíkur með manninn með eldsneytisstoppi á Egilsstaðaflugvelli upp úr klukkan sjö í morgun. Bátnum var svo komið í höfn í kjölfarið.
Fyrr um nóttina, um tvö leytið, barst björgunarsveitinni Báru á Djúpavogi einnig útkall vegna fiskibáts. Sá var stjórnlaus eftir stýrisbilun rétt austur af Papey en vel gekk að koma taug í bátinn þegar björgunarsveitin komst á staðinn og allir komnir að bryggju um hálf fimm.
Þetta reyndist annað útkall Báru á skömmum tíma því síðdegis í gær þurftu liðsmenn björgunarsveitarinnar að koma slösuðum hjólreiðarmanni til hjálpar en sá handleggsbrotnaði á ferð inni í Hamarsdal. Gekk vel að koma viðkomandi í sjúkrabíl og til aðhlynningar.
Þyrlan að hífa manninn um borð í morgun en þaðan var flogið með hann á sjúkrahús í Reykjavík. Mynd Landsbjörg