Um 20 Austfirðingar í heimasóttkví
Um tuttugu Austfirðingar eru nú í heimasóttkví til að koma í veg fyrir útbreiðslu mislinga. Um sjö hundruð manns hafa verið bólusettir undanfarna daga.Til margvíslegra ráðstafana hefur verið gripið síðustu viku til að hefta útbreiðslu mislinga. Á föstudag var kallað eftir að allir óbólusettir kæmu til bólusetningar og samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) höfðu um 700 manns látið bólusetja sig síðan.
Þá eru um 20 manns í heimasóttkví undir eftirliti heilsugæslunnar. Í henni felst að þeir einstaklingar sem hafa komist í tæri við sýktan einstakling skulu að mestu halda sig heima frá degi 6 eftir að þeir komust í tæri við hann og fram að degi 21.
Viðkomandi má alls ekki umgangast þá sem ekki hafa verið bólusettir fyrir mislingum eða fengið mislinga. Ekki skal fara á mannamót, í verslanir, á heilsuræktarstöðvar, á aðra fjölmenna staði eða nota almenningssamgöngur.
Í lagi er að fara í bílferð á eigin bifreið og til greina kemur að fara inn á önnur heimili ef staðfest er, að allir þar eru ónæmir fyrir mislingum, þ.e. bólusettir eða með fyrri sögu um mislinga. Þeir sem eru óbólusettir með öllu eru áfram í forgangi þar sem bóluefni er takmarkað. Von er á nýrri sendingu til landsins um miðja vikuna. Ekki hafa komið upp ný tilfelli síðan á föstudag.
Áfram verður bólusett á heilsugæslustöðvunum á Egilsstöðum og Eskifirði. Á Egilsstöðum verður bólusett milli klukkan 15 og 16 miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Gengið er inn hægra megin við aðalinngang heilsugæslu. Á Eskifirði verður bólusett milli klukkan 15 og 16 á fimmtudag.
Hafi fólk grun um að það sé smitað er það beðið um að koma ekki á heilsugæslustöðvar heldur hafa samband í síma 1700 sem er vaktsími opinn allan sólarhringinn fyrir landið allt.