Um 200 manns sótti samstöðufund gegn fiskeldi á Seyðisfirði

Um 200 manns sóttu samstöðufund VÁ – félags um verndun fjarðar gegn áformum um fiskeldi í Seyðisfirði sem haldinn var í Herðubreið á laugardagskvöld. Formaður félagsins segir stundina hafa snúist um að sýna samtakamátt sem sé sterkari en sérhagsmunaöfl.

„Það var ólýsanleg stemning og ást, von og baráttuandi voru allt umvefjandi,“ segir Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, formaður VÁ, um samstöðufundinn á laugardagskvöld.

Félagið var stofnað í byrjun árs 2021 til að berjast gegn áformum um fiskeldi í Seyðisfirði. Kaldvík hefur þar sótt um leyfi til að ala allt að 10.000 tonn af laxi á þremur eldissvæðum.

Í ræðu sinni á fundinum sagði Benedikta umsóknina hvorki snúast um hagsmuni Seyðisfjarðar né samfélagsins þar heldur vera mengandi stóriðju í djúpum og lygnum firði sem sé hvorki frumleg, metnaðarfull né sjálfbær framtíðarsýn heldur grafi undan vistkerfinu þar og þar með tilveru staðarins.

Hún sagði samstöðufundinn snúast um samtakamáttinn sem sé sterkari en sérhagsmunaöflin. Hagsmunir íbúanna byggi á ósnortinni náttúru. Seyðfirðingar finni fyrir miklum stuðningi við sinn málflutning á Íslandi og langt út fyrir landsteinana.

Baráttumyndband í alþjóðlega dreifingu


VÁ á aðild að GSFR (Global Salmon Farming Resistance) – alþjóðlegum samtökum sem berjast gegn fiskeldi, einkum í opnum sjókvíum. GSFR styrkti VÁ til að gera myndband sem frumsýnt var á fundinum en það sýnir hóp Seyðfirðinga mynda táknræna línu í fjörðinn. Benedikta sagði markmiðið að dreifa myndbandinu sem víðast til að skapa þrýsting á stjórnvöld hérlendis. Undir því hljómar lag sem Björk og hin spænska Rosalía gáfu út til að styðja baráttuna gegn fiskeldi á Seyðisfirði. Fulltrúi GSFR sendi fundinum einnig stutt ávarp.

Meðal annarra sem töluðu var Ómar Ragnarsson sem flutti ljóð og Chris Burkard ljósmyndari en Katrín Oddsdóttir lögfræðingur stýrði dagskránni. Benn Hemm Hemm og samstöðukór fluttu lagði Hafið eftir Prins póló og sýndar voru svipmyndir frá baráttunni gegn eldinu á Seyðisfiðri sem segja má að hafi hafist með undirskriftalista sem afhentur var sveitarstjórnaryfirvöldum í Múlaþingi snemma í desember 2020.

Bar saman baráttu Seyðfirðinga og Þingeyinga gegn Laxárvirkjun


Annar ræðumaður var Árni Pétur Hilmarsson, að Nesi í Aðaldal en hann átti þátt í að skipuleggja mótmæli á Austurvelli fyrir ár. Afi hans skipulagð hópferð Þingeyinga til Akureyrar árið 1970 þegar deilan um virkjun Laxár stóð sem hæst.

Árni Pétur sagði við ofurefli að etja, venjulegir launþegar væru að berjast við peningaöfl sem hefðu starfsfólk á borð við lögfræðinga og vel tengda fyrrum stjórnmálamenn á launum. Einstaklingarnir hefðu þó með sér virðingu fyrir umhverfinu. Þeir gætu líka sett þrýsting á stjórnmálamenn og það verði að gera í komandi þingkosningum. Hann furðaði sig á stuðningi stjórnmálamanna við fiskeldi á sama tíma og kannanir sýndu andstöðu meirihluta landsmanna við það. Árni Pétur sagði sjókvíaeldið hafa skilið eftir sig sviðna jörð hvar sem er og sent náttúrunni reikninginn.

Árni Pétur bar baráttu Seyðfirðinga saman við mótmæli Þingeyinga fyrir rúmum 50 árum, að landeigendur og íbúar á afmörkuðu svæði þyrftu að berjast gegn ásælni stórfyrirtækis. Þeir hefðu gert það með ærinni fyrirhöfn og samstilltu átaki. Hann kvaðst ekki mæla með aðgerðum eins og þar var beitt þegar stíflan var sprengd en bætti við að stundum þyrfti að sýna tennurnar. Hann ítrekaði stuðning með Seyðfirðingum og kvaðst viss um að meirihluti þjóðarinnar stæði með þeim.

Myndir: VÁ/Juanjo Ivaldi

094A0185 Web
094A0210 Web
094A0286 Panoramica Web
094A0290 Web
094A0302 Web
094A0316 Web
094A0325 Web
094A0339 Web
094A0346 Web
094A0386 Web
094A0393 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar