Um sex milljónir króna í bílastæðistekjur Isavia á Egilsstaðaflugvelli

Frá því að sú óvinsæla aðgerð að taka upp bílastæðagjöld við Egilsstaðaflugvöll var tekin af hálfu Isavia hefur fyrirtækið fengið um sex milljónir króna í kassann það sem af er.

Það var í júnímánuði sem gjaldtakan hófst en upphaflega stóð til að hefja hana með vorinu en sökum tæknivandræða sem og mikillar reiði margra seinkaði þeim áætlunum.

Var ekki aðeins fundið mjög að því að bílastæðaplanið við flugvöllinn á Egilsstöðum væri að stórum hluta aðeins óhefðlað malar- og moldarplan heldur jafnframt að hvergi á Austurlandi hefðu verið lögð slík gjöld á bíleigendur áður.

Einnig stóð í mörgum að aðeins stóð til að taka upp bílastæðagjöld á Egilsstöðum og Akureyri meðan þeir sem lögðu bifreiðum sínum við Reykjavíkurflugvöll fengju það áfram gjaldfrjálst. Því var breytt í kjölfar mótmæla víða frá.

Innheimt gjöld hingað til taka því tæknilega aðeins til rétt rúmlega þriggja fullra mánaða; júlí, ágúst og september svo gróflega má reikna út að tekjurnar hvern mánuð hafi verið um 1,7 til 1,8 milljónir króna á Egilsstaðaflugvelli.

Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar frá Isavia var stofnkostnaður fyrirtækisins við verkefnið kringum 5,5 milljónir en kaupa þurfti myndavélakerfi, tölvuþjóna og tengja allt saman auk þess sem kostnaður kom til vegna auglýsinga og skiltagerðar. Gjöldin hingað til hafa því greitt upphafskostnaðinn að fullu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar