Umfjöllun um Austurland í skötulíki í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna

„Öflug fréttaþjónusta eykur vitund íbúanna um landshlutann sinn, gæði hans, drifkraft, þróun og öflugt mannlíf auk þess sem það vekur alla landsmenn til vitundar um tilveru hans og hlutverk í samfélaginu öllu,“ segir Jóney Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, en sambandið skorar á RÚV að tryggja öfluga fréttamiðlun landshlutans í samræmi við markmið byggðaáætlunar


Í ályktun sem lögð var fram á haustþingi félagsins í byrjun september segir að þrátt fyrir yfirlýsingar um eflingu þjónustu á Austurlandi hafi raunin orðið önnur. Nauðsynlegt sé að styrkja öfluga fréttaþjónustu og dagskrárgerð í landshlutanum og bæta við fullu stöðugildi starfsmanns sem hefði einnig það hlutverk að nýta nýja möguleika í fjölmiðlun, svo sem gerð hlaðvarpsþátta.

„Svæðisútvarp RÚV var starfrækt á árunum 1985-2010. Á þeim tíma voru starfsmenn hjá RÚVAUST sem sinntu fréttamiðlun og dagskrárgerð. Útsendingum var hætt árið 2010 en áður hafði verið skorið talsvert niður á starfstöðvum svæðisútvarpa víða um land.“

Jóney segir að frá árinu 2013 hafi aðalfundur SSA sent frá sér ályktanir þar sem þess er krafist að RÚV hefji aftur starfsemi í fjórðungnum og sinnt verði öflugri fréttaþjónustu og dagskrárgerð. „Á aðalfundi árið 2014 flutti Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri ávarp og fjallaði þar m.a. um stöðu RÚV og þjónustu þess á landsbyggðinni. Hann sagði vilja til að efla starfsemi á landsbyggðunum og að fyrsta skrefið í þá átt hefði verið að ráða nýjan svæðisstjóra á Akureyri en stefnt væri að því að fjölga stöðugildum á landsbyggðinni. Síðan þá hefur lítið gerst í málinu; einn starfsmaður RÚV er starfandi á Austurlandi og þegar sá er í fríi er fréttaþjónustu ýmist sinnt eftir aðstæðum frá Akureyri, eða alls ekki. Tímabundið var ráðinn starfsmaður í 50% starf en það svo lagt af.“

Starfsstöð RÚV getur ekki byggst á einum manni
Jóney segir að í nýsamþykkri byggðaáætlun sem nær til ársins 2014 sé mikil áhersla lögð á styrkingu nærþjónustu, einnig að stofnanir nýti tækifæri til að dreifsetja þjónustu og störf séu auglýst án staðsetningar.

„Í aðgerðaáætlun er þetta útfært nánar og fjallað um eflingu fjölmiðlunar í héraði, þó þar sé RÚV ekki tiltekið sérstaklega. Í greinargerð með áætluninni er sérstaklega lögð áhersla á að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um land allt. Öflug starfsemi fjölmiðla, þ.m.t. RÚV, er einn þeirra þátta sem geta orðið til þess að efla byggðina á landinu öllu.

Hlaðvarpsþættir gætu skapað grundvöll fyrir auknu starfshlutfalli. Þar mætti hafa þætti sem byggjast á frásögnum af mannlífinu, samtöl við fólk, m.a. sveitarstjórnarfólk, þar sem málefni líðandi stundar eru kynnt og krufin. Að þessu sögðu er ljóst að vel mönnuð starfsstöð á Austurlandi eflir landshlutann. Starfsstöð sem ekki byggist á einum manni sem þarf eins og aðrir að fara í sumarfríi.“


Er RÚV okkar allra?
Jóney segir að umræða um málefni og mannlíf á Austurlandi sé í skötulíki í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna. Hún segir segir umræðu um málefni og mannlíf á Austurlandi í skötulíki í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna og það sé undir hælinn lagt hvort fréttir af Austurlandi ná í fréttatíma RÚV og að stöku sinnum birtist stutt innslög í Landanum.

„Þetta þýðir að hvergi er lifandi vettvangur fyrir umræðu um málefni sem ber hæst í landshlutanum hverju sinni. Þetta er sérstaklega áberandi í aðdraganda kosninga, til Alþingis og sveitarstjórna, að frambjóðendur hafa afar takmörkuð tækifæri til að skiptast á skoðunum og ræða atvinnulíf, menntun, menningu, samgöngur, heilbrigðisþjónustu og önnur mál sem brenna á íbúum.

Það skiptir máli að íbúar heyri um og sjái það sem fram fer í landshlutanum. Það eflir íbúana og eykur samstöðu þeirra. Börn og unglingar sjá eða heyra afar sjaldan nokkuð frá Austurlandi í fjölmiðlum. Þeir fjölmiðlar sem eru á svæðinu reyna að koma til móts við þetta en það er hvergi nóg. Einnig er öflug fréttamiðlun leið til þess að kynna öðrum Íslendingum Austurland sem ákjósanlegan búsetukost þar sem þróað, drífandi og lifandi samfélag er kynnt.

Því hlýtur það að vera krafa íbúa á Austurlandi að RÚV, sem kallar sig „okkar allra“, sinni öflugri fréttaþjónustu á svæðinu enda stendur á heimasíðu fyrirtækisins: „Stefnt er að aukinni starfsemi á landsbyggðinni á næstu misserum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.