Umhverfisráðherra austur til að kynna Hálendisþjóðgarð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun halda opinn fund á Egilsstöðum á miðvikudag til að kynna tillögur um stofnun Hálendisþjóðgarðs. Tillögur um þjóðgarðinn virðast vekja blendin viðbrögð meðal Austfirðinga.

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú aðgengilegt frumvarp ráðherra um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, á landssvæði sem er í sameign þjóðarinnar, þjóðlendum og friðlýstum svæðum innan miðhálendis.

Samkvæmt tillögunum munu mörk þjóðgarðsins miðast við miðhálendislínu auk landssvæða á miðhálendi og í nágrenni þess sem friðlýst hafa verið er þjóðgarðurinn verður stofnaður. Gert er ráð fyrir að það verði um næstu áramót. Þetta yrði um 30% alls flatarmáls landsins.

Tekur yfir Vatnajökulsþjóðgarð

Samkvæmt tillögunum rennur Vatnajökulsþjóðgarður inn í hinn nýja þjóðgarð sem verður sjálfstæð eining innan Þjóðgarðastofnunar. Unnið er að því að koma þeirri stofnun á laggirnar en hún myndi fara með yfirstjórn þjóðgarða landsins.

Innan hins nýja þjóðgarðs yrði því landssvæði sem tilheyrir sveitarfélögunum Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi. Í frumvarpinu er reiknað með að garðinum yrði skipt upp í að minnsta kosti rekstrarsvæði sem hvert hafi sitt umdæmisráð, skipað fulltrúum sveitarfélaga og hagsmunasamtaka með eigin þjóðgarðsvörð. Þá er gerð ráð fyrir þjónustumiðstöðvum á svæðunum, sem samkvæmt tillögum starfshóps yrðu Snæfellsstofa að Skriðuklaustri í Fljótsdal og á Fljótsdalsheiði við Laugarfell.

Vilja vernda Hraunasvæðið

Markmið með stofnunin eru meðal annars vernd náttúru og sögu þjóðgarðssvæðisins en einnig aukið aðgengi almenning, endurheimt vistkerfa og efling rannsókna. Frestur til að senda inn umsagnir um frumvarpið er til 15. janúar. Nokkrar umsagnir af Austurlandi hafa þegar borist um þjóðgarðinn.

Náttúruverndarsamtök Austurlands fagna áformunum. Stjórn samtakanna leggur þó áherslu á að Hraunasvæðið, þar sem í gildi eru nokkur rannsóknaleyfi fyrir virkjunum, verði innan þjóðgarðsins og njóti verndar.

Austurlandsdeild Ferðaklúbbsins 4x4 leggst hins vegar gegn stofnum þjóðgarðsins, einkum á þeim forsendum að Vatnajökulsþjóðgarður hafi ekki reynst jafn vel og vonast hafi verið eftir. Því sé rétt stofna til stærri einingar að svo stöddu.

Stjórn deildarinnar lýsir þeirri skoðun sinni að það samræmist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að þjóðgarðurinn einn fái að afla orku af svæðinu, óttast er að fyrirheit um auðveldara aðgengi almennings verði ekki efnd og nær væri að efla lögregluna eða aðra aðila til að vakta hálendið frekar setja fjármuni í ógagnsæjan skrifstofurekstur.

Ekki tímabært meðan Vatnajökulsþjóðgarði er ekki tryggt fjármagn

Björn Ármann Ólafsson, leiðsögumaður á Egilsstöðum, fyrrum stjórnarmaður Vatnajökulsþjóðgarðs og formaður austursvæðis hans, gagnrýnir einnig hugmyndirnar um stofnum Miðhálendisþjóðgarðsins sem hann telur ótímabærar.

Björn Ármann lýsir þeirri skoðun sinni að Vatnajökulsþjóðgarður hafi aldrei náð þeim styrk sem vænst var eftir því hann hafi skort fjármagn, bæði til uppbyggingu innviða og landvörslu. Þetta hafi meðal annars leitt til þess að ekki hafi tekist að framfylgja verndarstefnu þjóðgarðsins. Stærri þjóðgarður myndi væntanlega draga að sér fleira fólk sem sé varlegt meðan ekki sé tryggt fjármagn í verndun.

Þá hafi við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs gerið gert samkomulag við sveitarfélög og hagsmunaaðila á viðkomandi svæðum en síðar hafi verið reynt að koma í gegn breytingum sem miðað hafi að því að færa völdin úr höndum heimamanna. Björn Ármann óttast að þetta verði einnig reyndin með hinn nýja þjóðgarð.

Sem fyrr segir mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, kynna frumvarpið um stofnum Hálendisþjóðgarðsins á opnum fundi á Egilsstöðum á miðvikudag. Fundurinn hefst klukkan 18:00 og verður haldinn á Hótel Héraði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar