Umhverfisstofnun ekki heimilt að takmarka fjölda á námskeiði í leiðsögn fyrir hreindýraveiðar vegna kostnaðar

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið telur að Umhverfisstofnun hafi ekki verið heimilt að setja fjöldatakmarkanir á námskeið fyrir væntanlega leiðsögumenn með hreindýraveiðum á þeim forsendum hún gerði. Ráðuneytið gerir ekki athugasemdir við hvernig stofnunin valdi inn á námskeiðið. Nýtt námskeið verður haldið í vetur.

Umhverfisstofnun auglýsti í byrjun árs fyrsta námskeiðið fyrir nýja leiðsögumenn með hreindýraveiðum síðan árið 2011. Mikill áhugi var á námskeiðinu og sóttu alls 100 einstaklingar um að fá að sitja það.

Strax í fyrstu auglýsingu var þó tekið fram að aðeins 30 sæti væru í boði og þegar sótt var um var vísað í upplýsingasíðu með verklagsreglum og skilyrðum fyrir inntöku. Umsækjendur þurftu að haka í box í vefumsókn þar sem þeir sögðust hafa lesið og samþykkt þá skilmála.

Megn óánægja greip um sig þegar Umhverfisstofnun tók að senda þeim 70 sem ekki komust inn höfnunarbréf. Tveir þeirra fengu sætum sem bætt var við eftir að í ljós komu mistök við mat umsókna þeirra. Svo fór að tíu einstaklingar kærðu ákvarðanirnar. Ráðuneytið úrskurðaði í málum þeirra fyrir tveimur vikum en Austurfrétt fékk úrskurðina afhenta í gær. Úr gögnunum má lesa að tvær kærurnar hafi um tíma týnst í ferlinu en fundist aftur. Málin eru mjög svipuð, enda sex kærur sendar inn af sama lögmanni og úrskurðir ráðuneytisins efnislega þeir sömu.

Töldu brotið gegn atvinnufrelsi


Kæruatriðin eru nokkur. Grunnatriði er að með ákvörðuninni sé brotið á réttindum um atvinnufrelsi og umsækjendur lýsa yfir ótta sínum með að fá ekki annað tækifæri fyrr en eftir 13 ár. Kærendur telja Umhverfisstofnun ekki hafa haft lagaheimild til að takmarka fjöldann á námskeiðið eða sýnt fram á þörfina á því. Hún er sögð hafa brotið gegn meðalhófi.

Þá er gagnrýnt að takmarkaðar upplýsingar hafi verið um hvernig valið yrði inn á námskeiðið. Þannig hafi vægi mismunandi hæfniþátta ekki verið skilgreint í auglýsingu, enda hefðu umsækjendur þá unnið umsóknir sínar með öðrum hætti. Stofnunin er sökuð um að hafa brotið gegn upplýsinga- og andmælarétti með að upplýsa umsækjendur ekki um andmælarétt við synjuninni. Krafa um meðmæli frá núverandi leiðsögumönnum er talin orka tvímælis því þar standi ekki allir jafnir að vígi.

Umhverfisstofnun ætlað að meta þörfina á endurnýjun leiðsögumanna


Samkvæmt lögum er Umhverfisstofnun ætlað að halda námskeið fyrir væntanlega leiðsögumenn. Þar segir að hún eigi að meta þörfina á slíkum námskeiðum með tilliti til „eðlilegrar endurnýjunar í hópi leiðsögumanna.“ Í svörum stofnunarinnar kemur fram að hún telji þetta orðalag heimila henni að takmarka fjölda nemenda á námskeiðunum. Þar kemur einnig fram að stofnunin fari reglulega yfir bæði fjölda leiðsögumanna eftir svæðum, virkni þeirra og aldur til að meta þörfina á endurnýjun.

Stofnunin tekur fram að notast hafi verið við hlutlæga þætti eins og kostur hafi verið við mat á umsækjendum. Umsækjendum hafi verið birtar ítarlegar verklagsreglur um námskeiðin, strax í upphafi hafi verið tekið fram að horft yrði til veiðireynslu á því svæði sem sótt væri um og beðið um kynningarbréf með ákveðnum upplýsingum. Tveir starfsmenn Umhverfisstofnunar hafi síðan, hvor í sínu lagi, farið yfir bréfin og metið með skorblöðum. Þeir hafi síðan borið saman bækur sínar eftir á ef misræmi var á mati þeirra. Þá hafi stofnunin haft upplýsingar um felld dýr síðustu ár eftir einstaklingum.

Fjöldi veiddra dýra á svæði hafði langmest vægi


Varðandi gagnrýni á skilyrði um meðmæli frá eldri leiðsögumanni er vísað til þess að stofnunin hafi birt lista yfir þá og flokkað þá eftir hæfni, þar sem þeir sem höfðu leiðsagt að minnsta kosti 50 veiðmönnum voru efstir. Umhverfisstofnunin bendir einnig á að leiðsögumenn þurfi fyrst að leiðsegja tvisvar í fylgd eldri leiðsögumanns áður en þeir hljóta fullgildingu. Meðmælin jafngildi vilyrði að komast í slíka veiðiferð.

Fram kemur að fjöldi veiddra dýra á því svæði sem sótt var um að læra á hafði mest vægi í heildareinkuninni, eða 40%. Fjöldi veiddra dýra á öðrum svæðum gilti 20%, kynningarbréfið 25% og vilyrði um veiðiferð 15%.

Stofnunin hafnar því að hafa brotið á andælarétti þar sem umsóknin sé fullnaðarafstaða einstaklinganna til málsins. Þá eigi synjunin aðeins við um þetta tiltekna námskeið. Strax í synjunarpóstinum hafi verið tekið fram að ferlið yrði tekið til endurskoðunar.

Í athugasemdum kærenda eftir fyrsta svar Umhverfisstofnunar lýsa þeir vonbrigðum með niðurstöðuna og telja hana ekki hafa nein haldbær rök. Sérstaklega er gagnrýnt að fjöldi veiddra dýra á viðkomandi svæði hafi mest gildi.

Fjöldinn miðaður við kostnað og kennslufræði


Ráðuneytið sendi Umhverfisstofnun einnig frekari spurningar. Þar er helst að nefna að ráðuneytið kallaði eftir því hvernig 30 nýir leiðsögumenn væru taldir eðlileg endurnýjun, af hverju stofnunin hafi ekki talið þörf á að halda fleiri námskeið strax í ljósi eftirspurnarinnar og hvernig hún mæti endurnýjun til framtíðar.

Í svörum stofnunarinnar við þeim spurningum kemur fram að fjöldinn hafi verið í góðu samræmi við þá þörf sem stofnunin taldi á endurnýjun, kennslufræðileg atriði og kostnað við námskeiðið. Stofnunin telur að fjöldi á námskeiðinu eigi að ráðast á endurnýjunarþörfinni, ekki hve margir sæki um. Hún segist ítrekað hafa kallað eftir því að lögin yrðu endurskoðuð og skýrð nánar, svo sem hvaða atriði eigi að ráða endurnýjun.

Umhverfisstofnun mátti ekki takmarka fjölda vegna kostnaðar


Í niðurstöðu ráðuneytisins segir að þótt Umhverfisstofnun hafi heimildir til að takmarka fjölda nýrra leiðsögumanna, svo sem með tíðni námskeiða eða fjölda nemenda, þá verði hún við það að gera það á málefnalegum sjónarmiðum og gæta jafnræðis. Reglan sé þó að ekki megi við það líta til fjárhagslegra sjónarmiða, nema með sérstakri lagaheimild. Hins vegar sé lögunum að finna heimild til að krefjast hærra þátttökugjalds á námskeiðunum, sem var nýtt. Þess vegna hafi stofnunin hvorki verið heimilt að halda takmarkaðan fjölda námskeiða né takmarka þáttöku á þeim.

Ráðuneytið bendir á að seta á námskeiðinu sé engin trygging að nemandi verði fullgildur leiðsögumaður. Hún sé hins vegar forsenda þess, einkum þegar 13 ár eru liðin frá síðasta námskeiði. Ákvörðunin hafi þannig afgerandi þýðingu fyrir möguleika fólks á að öðlast tiltekin réttindi. Ólögmætt hafi verið að synja fólkinu um setu á námskeiðinu á þessum forsendum. Ráðuneytið telur að stofnunin hefði getað takmarkað fjölda nýrra leiðsögumanna með öðrum aðferðum, svo sem hertum kröfum um framvindu í náminu eða prófum.

Þar með hafi Umhverfisstofnun ekki gætt að lögmætisreglu eða meðalhófsreglu og brotið á hagsmunum sem varða atvinnufrelsi. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um að neita fólkinu um setu á námskeiðinu er þar með felld úr gildi.

Nýtt námskeið næsta vetur


Ráðuneytið telur hins vegar stofnunina í upphafi hafa veitti nógu góðar upplýsingar um væntanleg inntökuskilyrði. Með því hafi stofnunin einnig haft öll þau gögn sem hún þurfti til að taka ákvarðanir í málinu og því ekki brotið gegn andmælarétti.

Samkvæmt upplýsingum Austurfréttar hefur Umhverfisstofnun þegar sent þeim sem hafnað var í vetur boð um að sitja nýtt námskeið á komandi vetri. Það verði fyrir haldið fyrir alla þá sem synjað var síðast. Nánari upplýsingar verði sendar út sem fyst, en einhvern tíma þurfi þó til að skipuleggja og auglýsa nýtt námskeið. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem ákvörðunin kann að hafa valdið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar