Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við frávik frá starfsleyfi Fjarðaáls
Umhverfisstofnun gerir athugasemdir við þrjú frávik frá starfsleyfi Alcoa Fjarðaáls í kjölfar flúormengunar frá álveri fyrirtækisins í sumar. Fyrirtækið segir að brugðist hafi verið við öllum athugasemdum stofnunarinnar.
Í skýrslu Umhverfisstofnunar segir að vegna „rangrar virkni eða rangrar kvörðunar síritandi rykmæla“ hafi innra eftirlit brugðist. Við skoðun fundust götóttir síupokar í tveimur hreinsivirkjum en mælarnir sýndu hvorki það né aukna losun vegna þess. Ljóst er talið að mælarnir hafi ekki virkað rétt.
Þar sem mælingar á losun flúors voru ekki nothæfar var ekki brugðist við bilun í rykhreinsibúnaði. Þar sem flúor hafi aukist í gróðri telur Umhverfisstofnun ekki sýnt fram á að losun flúors hafi verið undir mörkum.
Þá gerir stofnunin athugasemdir við að vöktunarbúnaður í rykhreinsivirki hafi hvorki verið prófaður árlega né kvarðaður á þriggja ára fresti. Með fráviki er átt við að framkvæmd sé ekki í samræmi við kröfur sem settar eru fram í starfsleyfi, lögum eða reglugerðum.
Umhverfisstofnun barst tilkynning frá Alcoa um „sýnilegan reyk undanfarnar vikur“ 4. september síðastliðinn. Stofnunin bendir á að tilkynna eigi mengunaróhöpp eins fljótt og hægt sé. Í lok júní mældist óeðlilega mikið ryk frá rykhreinsivirkjum.
Skýringar Fjarðaáls er að það hafi verið til komið af viðhaldsvinnu á mælingu stóð sem skekki niðurstöðurnar. Umhverfisstofnun bendir á að skráningar og niðurstöður mælingar skulu vera aðgengilegar eftirlitsaðila en nokkurn tíma tók að fá mælingarnar frá því í júní.
Í yfirlýsingu sem Alcoa Fjarðaál sendi fjölmiðlum í morgun segir að þegar hafi verið brugðist við athugasemdum Umhverfisstofnunar enda líti fyrirtækið „það mjög alvarlegum augum sé mengunarvörnum þess í einhverju áfátt.“
Ráðist hafi verið í úrbætur á þeim tæknilegum ágöllum sem athugasemdir voru gerðar við og skerpt á verkferlum til að lágmarka líkur að frávik sem þessi komi aftur upp.