Undirbúa byggingu fjölbýlis fyrir eldri borgara á Egilsstöðum
Þörfin á smærri íbúðum fyrir eldri borgara á Egilsstöðum hefur verið að aukast jafnt og þétt undanfarin ár og nú er sérstakt félag eldri borgara að klára helsta undirbúning fyrir verkefnið.
„Ég er formaður í félagi sem heitir Sigurgarður og við erum að undirbúa byggingu fjölbýlishúss hér í miðbænum,“ segir Sigurjón Bjarnason, í samtali við Austurfrétt. „Það eru svona að fæðast teikningar á þessari stundu. Það er komin ákveðin þörf fyrir smærri íbúðir fyrir þá sem hafa búið í tiltölulega rúmgóðu húsnæði á svæðinu. Það var gerð könnun hér fyrir þremur árum síðan og þar kom berlega í ljós að margir voru áhugasamir um að minnka við sig.“
Í hjarta bæjarins
„Staðsetningin er á Miðvangi 8 við hliðina á Hlymsblokkinni svokölluðu. Nýja húsið verður einni hæð lægri en sú blokk og þar verða einar 24 íbúðir í heildina. Við miðum við að framkvæmdir hefjist í vor en aðal framkvæmdatíminn verði á næsta ári. Hugsanlega næst að koma þessu upp úr jörð á þessu ári en við leggjum upp með að afhenda íbúðirnar í lok árs 2024 eða snemma árs 2025,“
„Það er nú ekki hægt að segja það. Við þurftum reyndar að kosta upp á breytingar á deiliskipulagi og leituðum til sveitarfélagsins um að fá það að hluta endurgreitt en því var synjað. Deiliskipulagsbreytingin var mikilvæg því eins og þetta var lagt upp áður þá hefði það ekki gengið upp en þar fóru einar tvær milljónir króna.
Þannig að við erum með þetta verkefni alfarið á okkar eigin vegum. Fjármögnun fer þannig fram að þeir sem eru að eignast þarna íbúð þeir borga byggingakostnaðinn bara jafnóðum og hann fæðist. Þannig að félagið Sigurgarður þarf ekki að fjármagna neitt. Á hluta neðstu hæðar verður svo sérstakt þjónusturými og það kann að vera að við þurfum að fjármagna það þegar fram í sækir ef okkur tekst ekki að selja það. Það fer bara í söluferli og verður þá á einhverjum besta stað í bænum fyrir þjónustu af einhverju tagi.“
Fyrstu teikningarnar af fyrirhugðu fjölbýlishúsi sáu dagsins ljós fyrir skemmstu. Íbúðirnar verða að óbreyttu tilbúnar í lok árs 2024 eða snemma árs 2025. Teikning Arkís