Undirbúningi haldið áfram fyrir stækkun flugvallarins á Egilsstöðum

Áframhaldandi undirbúningur fyrir stækkun flugvallarins á Egilsstöðum er eitt helsta staka verkefnið í samgöngumálum sem unnið verður í á Austurlandi á næsta ári. Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í að hanna brýr á Axarvegi.

Framlög til samgöngumála næsta árs voru staðfest þegar fjárlög voru afgreidd frá Alþingi á mánudag. Samkvæmt tilkynningu innviðaráðuneytisins hækka framlög til samgöngumála um 17%, úr 53 milljörðum í 62.

Ekkert stórverkefni er á Austurlandi, en skammt frá er unnið í nýjum brúm og vegtengingum í kringum Hornafjarðarfljót og nýjum vegi yfir Brekknaheiði.

Samkvæmt frétt Stöðvar 2 frá í gærkvöldi er ekkert fjármagn sett í jarðgöng á Austurlandi. Fjarðarheiðargöng eru fullhönnuð en beðið hefur verið eftir að verkefnastofa tveggja ráðuneyta skili af sér tillögum um gjaldtöku af umferð um stök mannvirki. Unnið verður að hönnun fjögurra ganga annars staðar á landinu.

Hins vegar auglýsti Vegagerðin fyrr í þessum mánuði útboð á hönnun fjögurra brú á nýjum vegi yfir Öxi. Um er að ræða tvær brýr yfir Berufjarðará auk brúa yfir Innri Yxnagilsá og Merkjalæk. Frestur til að skila inn tilboðum er til 10. desember. Hönnuninni á að vera lokið í lok janúar 2026.

Á næsta ári eru 2,5 milljarðar settir í slitlag tengivega og 500 milljónir í að fækka einbreiðum brúm. Ekki kemur fram hvernig þeim verður varið en á Austurlandi hefur verið unnið í endurbótum á veginum inn í Stuðlagil á Jökuldal og að Hafnarhólma á Borgarfirði.

Varaflugvallargjaldi er ætlað að stand undir stórum framkvæmdum á Reykjavíkurvelli, Akureyrarvelli og Egilsstaðavelli. Veitt er 1,4 milljarði í framkvæmdir á flugvöllum á næsta ári. Meðal annars á að undirbúa gerð nýrrar akbrautar og flughlaða á Egilsstöðum og sinna viðhaldi á Vopnafiðri og Norðfirði.

Þá fara, samkvæmt yfirliti innviðaráðuneytisins, 1,6 milljarðar í sjóvarnir og hafnir. Á Austurlandi verða framkvæmdir á Borgarfirði, Vopnafirði og Djúpavogi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar