Unnur Birna tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna
Unnur Birna Kalsdóttir, sagnfræðingur á Fljótsdalshéraði, er meðal þeirra sem tilnefnd eru til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sem afhent verða í kvöld.Unnur Birna gaf síðasta haust út bókina Öræfahjörðin um sögu hreindýra á Íslandi.
Unnur Birna er doktor í sagnfræði frá Háskóla Íslands og fluttist austur á Hérað árið 2012 er hún tók við starfi safnstjóra Minjasafns Austurlands. Í því starfi setti hún upp viðamikla sýningu um hreindýr í safninu.
Eftir sýninguna var hún ráðin í rannsóknarstöðu á vegum Háskóla Íslands á Egilsstöðum þar sem hún tók hreindýrin fyrir. Sá efniviður sem hún viðaði að sér við rannsóknirnar varð síðan grunnurinn að bókinni sem kom út í haust.
„Þetta var mikið verk og hefði aldrei orðið að veruleika nema af því að ég kynntist hér svo góðu fólki, sem hefur aðstoðað mig við heimildaöflun og greitt götu mína,“ sagði Unnur Birna er hún kynnti bókina í nóvember.
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í kvöld. Bók Unnar Birnu er ein af fimm sem tilnefndar eru i flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Áður var Öræfahjörðin ein þriggja bóka sem tilnefndar voru til Fjöruverðlaunanna –bókmenntaverðlauna kvenna en hlaut þau ekki.