Uppbókað gistipláss felldi flug Condor

Takmarkað gistipláss yfir sumartímann á Austur- og Norðurlandi varð til þess að sala í boðað áætlunarflug Condor til Egilsstaða og Akureyari í sumar var það langt undir væntingum að hætt var við flugið í gær. Framkvæmdastjóri Austurbrúar segir ákvörðunina vonbrigði en sú vinna sem lagt hafi verið í nýtist til framtíðar.

„Á endanum fá ferðaskrifstofurnar ekki nógu mörg herbergi eða annað sem á þarf að halda. Það voru vonir um að pláss losnaði þegar aðrar skrifstofur færu að afbóka gistipláss sem þær höfðu tekið frá en svo gerðist það ekkert,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Strax þegar Condor tilkynnti um flugin í júlí í fyrra voru viðhöfð varúðarorð um að Norður- og Austurland væru ásetin um háannatímann. Þráinn Lárusson, eigandi 701 Hotels, sagði þá stöðuna erfiða, gististaðir væru uppbókaðir yfir hásumarið en tómir þess utan þannig að tímabilið væri ekki nógu langt til að bera frekari fjárfestingu.

Áhugi á Austurlandi


Jóna Árný segir að á næstunni þurfi að vinna áfram í að vekja áhuga fjárfesta á Austurlandi þannig að beint flug verði síðar að veruleika. Í markaðsvinnu síðustu mánaða hafi berlega komið fram áhugi á svæðinu.

„Þarna var flugfélag sem var tilbúið í tæpa sex mánuði. Út frá því er augljóst að áhugi er til staðar sem og hjá ferðaskrifstofum á svæðinu. Við erum nýkomin af ITB Berlin, einni stærstu ferðasýningu heims og þar fundum við mikinn áhuga á Norður- og Austurlandi en það er erfitt að koma viðskiptum fyrir, bæði vantar gistipláss en líka afþreyingu, meira að segja á háannatíma. Næstu skref verða að hvetja til þess innan ferðaþjónustunnar og meðal fjárfesta að undirbyggja heilsárferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi.

Við vorum búin að finna þörfina á fjárfestingunni og þess vegna fórum við strax í nóvember að vekja athygli á tækifærum í fjárfestingum á Austurlandi. Á aðalfundi Austurbrúar í byrjun maí verður fjárfesting á svæðinu í fókus.

Það er ljóst að ferðaskrifstofur eru stór þáttur í hvernig svona flug verður til. Í skilaboðum sínum til okkar hefur Condor viðurkennt að hafa farið full seint af stað en það er augljóst að þessir aðilar hafa trú á áfangastaðnum og sjá tækifæri,“ segir Jóna Árný.

Tekst ekki allt í fyrstu tilraun


Tilkynning um að Condor væri hætt við flugið í sumar kom í gegnum Isavia. Talsmaður félagsins staðfesti það við Austurfrétt í morgun en enn hefur það sjálft ekkert látið frá sér opinberlega. Viðskiptavinir, sem áttu bókað, hafa sumir fengið þau svör frá þjónustuveri flugfélagsins að flugið sé á áætlun og ástæðan fyrir að það finnist ekki lengur í bókunarvél á heimasíðu sé að uppselt sé.

Jóna Árný segir að aðstandendur flugsins hérlendis, með Isavia í fararbroddi, hafi verið sammála um að tilkynna um niðurstöðu þegar staðfesting var komin frá Condor, meðal annars því fólk var farið að taka eftir grunsamlegum atriðum eins og bókunarvélinni.

Hún segist skilja vel gremju fólks sem átti bókað með Condor, enda í þeim hópi sjálf, og gagnrýni um að viðskiptavinir eigi erfitt með að treysta félaginu aftur því til skoðunar er að gera aðra tilraun við áætlunarflugið árið 2024.

„Þreifingar eru byrjaðar um flug þá en það verður að vera hægt að koma fyrir nýjum ferðum á markaðinum. Verkefni okkar næstu vikurnar er að fara yfir hvað þurfi að gera til að svo verði.

Við höfum komið ábendingum til Condor um að sinna sinni upplýsingamiðlun. Þegar það verður búið að koma sínum málum í réttan farveg í lok vikunnar er hægt að halda áfram. Ég skil sjónarmið Austfirðinga sem voru búnir að bóka flug en ég vona að þeir sýni áfram viljann í verki þegar tækifæri gefst næst.

Við verðum að mæta jákvæð til leiks þegar verið er að reyna nýja hluti. Það tekst ekki allt í fyrstu tilraun, jafnvel ekki annarri. Ég held það sé aðeins tímaspursmál um hvenær reglulegt millilandaflug um Egilsstaðavöll verður að veruleika,“ segir hún.

Markaðsvinna sem nýtist


Jóna Árný óttast ekki að hrakfarir Condor nú fæli önnur flugfélög frá. „Það er ekkert launungarmál að við höfum talað við fleiri flugfélög, bæði á þeim sýningum sem við höfum sótt en líka með Markaðsstofu Norðurlands. Flugheimurinn þekkir vel hvernig er að hefja flug á nýjum leiðum, þar snýst allt um tímapunktinn þar sem allt smellur saman. Ég held því að þessi tilraun veki frekar athygli á áfangastaðnum.“

Austurbrú lagði í mikla vinnu við að markaðssetja flugið og eins hafa ferðaþjónustuaðilar lagt sitt af mörkum. Jóna Árný segir þá vinnu alls ekki til einskis. „Sú vinna nýtist öll sem og tengslanetið. Við höfum á okkar lista yfir 80 þýskar ferðaskrifstofur sem við höfum snert á síðustu mánuði, fyrir utan sambönd sem íslenskar ferðaskrifstofur hafa myndað.

Við höfum enn trú á Austurlandi sem áfangastað og við heyrum það alls staðar að okkur að þetta er sú ferðaþjónusta sem þarf að verða til. Ég veit að þetta er röskun fyrir íbúa en þetta er raunin. Hvað varðar ferðaþjónustuaðilana þá held ég að eftirspurnin eftir Austurlandi sé slík að þótt einhverjar gistinætur verði afpantaðar þá fyllist þær aftur. Og sá áhugi ætti að hvetja fjárfesta áfram.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar