Upplýsingagjöf til farþega kann að skipta máli

Framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna telur ekki loku fyrir það skotið að farþegar sem yfirgáfu flugvélar Wizz Air á Egilsstöðum síðastliðið föstudagskvöld kunni að eiga rétt á bótum vegna aukakostnaðar sem þeir urðu fyrir við að koma sér til Keflavíkur úr höndum félagsins. Þó sé margt óljóst um ákvörðun flugfélagsins og hvernig aðstæður voru.

„Það eru ýmsar spurningar sem vakna um þetta mál,“ segir Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna.

Tvær vélar Wizz Air lentu á Egilsstöðum á föstudagskvöld vegna veðurs í Keflavík. Farþegar fengu að velja hvort þeir færu aftur með þeim til Póllands og væru þá í umsjá flugfélagsins eða færu út á Egilsstöðum og yrðu þá á eigin vegum. Áður en þeir fóru frá borði urðu þeir að skrifa undir samning þess efnis að þeir fyrirgerðu rétti sínum til bóta af hálfu félagsins.

Enn hefur enginn þeirra farþega sem fóru út á Egilsstöðum haft samband við samtökin eða sent gögn. Brynhildur segir að ef það gerist fari sérfræðingar samtakanna í ferðamálum í málið. „Við þurfum gögn og upplýsingar til að geta metið stöðuna og svarað því hver réttur farþegans er.“

Vissu farþegar rétt sinn?

Brynhildur segir að álitaefni í þessu samhengi snúist annars vegar um yfirlýsinguna sem farþegum var gert að undirrita, hins vegar um hvort flugfélagið hafi uppfyllt skilyrði reglugerðar um réttindi flugfarþega um aðstoð og breytingu á flutningi.

„Ef farþegar eiga rétt í þessu máli þá getur þeir ekki afsalað sér réttindum með að skrifa undir samning. Vel má þó vera að samningur sé réttmætur en það vakna þó spurningar eins og vissi fólk nákvæmlega hvaða rétt það átti? Hversu upplýst var það um aðra kosti í stöðunni eða skildi það réttindi sín?,“ spyr hún.

Margt óljóst um ákvörðun flugfélagsins

„Svo er hitt að flugfélag ber ábyrgð á því að koma fólki á leiðarenda, en þegar flugi er aflýst eða seinkað um ákveðinn tíma getur flugfélag þurft að greiða meðal annars fyrir hótelgistingu að vissum skilyrðum uppfylltum á meðan farþegar bíða eftir að vera fluttir á lokákvörðunarstað.

Í þessu máli virðist, samkvæmt fréttum, flugfélagið hafa boðið upp á hótelgistingu í Póllandi og flug þaðan til Keflavíkur síðar meir í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Mögulega hefði verið eðlilegra að bjóða farþegum gistingu á Egilsstöðum og flytja þá síðan til Keflavíkur þegar það var mögulegt í stað þess að fljúga aftur til Póllands. Þar sem Neytendasamtökin hafa ekki heyrt skýringar flugfélagsins á þessari ákvörðun er erfitt að meta það,“ segir Brynhildur.

Neytendasamtökin hýsa Evrópsku neytendaaðstoðina (ECC) hérlendis. Það þýðir að íslenskir neytendur geta leitað til ECC vegna vandamála sem upp koma vegna viðskipta við fyrirtæki sem staðsett er í löndum innan Evrópusambandsins eða í Noregi. Að sama skapi geta neytendur búsettir innan Evrópusambandsins, í Noregi eða á Íslandi leitað til ECC vegna millilandaviðskipta við fyrirtæki hér á Íslandi. Brynhildur segir að flestar kvartanir til ECC snúi einmitt að flugi og bílaleigubílum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar