Upplýsingar með SMS um snjóflóðahættu á Fagradal

Vegagerðin mun í haust hefja sendingar á SMS-boðum um snjóflóðahættu á veginum um Fagradal. Gerast þarf áskrifandi að boðunum. Slík þjónusta hefur reynst vel á öðrum vegum landsins þar sem mikil snjóflóðahætta ríkir.

„Við höfum verið með svona þjónustu á völdum vegum í nokkur ár með góðum árangri. Heimamenn hafa verið mjög þakklátir fyrir hana,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Slíkar tilkynningar voru fyrst í boði fyrir Óshlíð fyrir um 20 árum. Þær eru nú til fyrir Flateyrarveg, Ólafsfjarðarmúla, Súðavíkurhlíð og Sigufjarðarveg. Raknadalshlíð, í norðanverðum Patreksfirði, bætist einnig við í haust.

Þjónusta sem þessi er meðal þess sem rætt hefur verið til að auka öryggi fólks vegna snjóflóða á Austfjörðum, en slíkar aðgerðir hafa verið yfirfarnar eftir snjóflóðin í Neskaupstað og víðar á svæðinu í lok mars 2023.

Upplýsingar verða sendar út þegar varað er við snjóflóðahættu á næstu klukkustundum, lýst er yfir óvissustigi sem þýðir að mælst er til að fólk keyri ekki veginn að nauðsynjalausu, þegar veginum er lokað vegna hættu og loks þegar hann er opnaður aftur.

Vegfarendur sem vilja skrá sig á SMS-listann er bent á að senda ábendingu inn á vegagerdin.is þar sem taka þarf fram nafn og gsm númer. Einnig er hægt að hafa samband við upplýsingasíma Vegagerðarinnar 1777, eða senda tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Sérstaklega er því beint til þeirra sem fara oft um veginn, vegna atvinnu sinnar, skólasóknar eða af öðrum ástæðum, að nýta sér þessar viðvaranir.

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.