Uppsögn samnings Landsvirkjunar vendipunkturinn fyrir Rafveitu Reyðarfjarðar

Sú staðreynd að Landsvirkjun hefur sagt upp þjónustusamningi um orkukaup fyrir Rafveitu Reyðarfjarðar gerir það að verkum að ekki er hægt að reka Rafveituna í óbreyttri mynd, að sögn bæjarfulltrúa og starfsmanna Fjarðabyggðar. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um fyrirhugaða sölu meðal bæjarbúa.

„Mat okkar er að rekstrargrundvöllur Rafveitu Reyðarfjarðar sé brostinn og hún ekki á vetur setjandi,“ sagði Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar þegar hann bauð gesti velkomna á íbúafund um málefni Rafveitunnar í Grunnskóla Reyðarfjarðar í gærkvöldi.

„Uppsögn Landsvirkjunar setur okkur í þrönga stöðu. Það er áhætta að kaupa raforku og selja. Það er ekki hlutverk starfsmanna sveitarfélagsins eða bæjarfulltrúa að gambla með rekstur einstakra eininga. Ég held þetta sé ekki gróðavænleg viðskipti fyrir okkur,“ sagði Snorri Styrkárson, fjármálastjóri Fjarðabyggðar.

Snorri hafði framsögu um stöðu Rafveitunnar. Fyrir liggur að Rarik er tilbúið að kaupa dreifikerfi veitunnar á 440 milljónir og Orkuveitan viðskipti og virkjun í Búðará fyrir 130 milljónir. Bæjarstjórn leitaði til fyrirtækjanna eftir að Landsvirkjun, sem séð hefur um orkukaup fyrir Rafveituna frá 2005, sagði upp samningi þar um. Til stendur að afhenda eignir Rafveitunnar 1. febrúar næstkomandi, sama dag og samningurinn við Landsvirkjun rennur út. Ákvörðunar um viðskiptin er að vænta á bæjarstjórnarfundi sem boðaður hefur verið klukkan fimm í dag.

Áhætta í raforkuviðskiptum

Snorri fór yfir hvernig rekstur Rafveitunnar skiptist í þrjá þætti: framleiðslu, dreifikerfi og sölu. Rafmagn er framleitt í virkjun í Búðará sem er rennslisvirkjun án miðlunarlóns. Áætlað er að hún geti framleitt 5% af því rafmagni sem þéttbýlið á Reyðarfirði þarf og skili 8-9 milljónum króna í tekjur árlega.

Dreifiveitan hefur einkarétt á dreifingu rafmagns í þéttbýlinu sem löngum var kennt við Búðareyri. Rafmagnið er annars vegar fengið úr virkjuninni en að mestu frá tengivirki á Stuðlum. Loks er það söluhlutinn, sem tæknilega séð er á samkeppnismarkaði á landsvísu. Einu viðskiptavinirnir utan Reyðarfjarðar eru tveir fyrrum starfsmenn Rafveitunnar og fjarvarmaveitan í Neskaupstað. Snorri benti á að mikill áhætta væri í þessum hluta rekstursins, áætla þyrfti hve mikið væri keypt inn fram í tímann miðað við vænta sölu. „Þetta er áhættusamur rekstur þar sem hægt er að misreikna sig,“ sagði hann. 

Aukinn kostnaður yfirvofandi

Snorri fór einnig yfir fjármál Rafveitunnar sem velti 293,5 milljónum í fyrra. Verðmæti framleiðslu virkjunarinnar voru 9 milljónir, tekjur af dreifingu 143,5 milljónir og 141 milljón af sölunni. Hagnaður eftir skatta síðustu ár hefur verið 10-15 milljónir króna. Snorri kom einnig inn á væntan ágóða samfélagsins, um 2-4 milljónir fyrir þátttöku í samrekstri sveitarfélagsins utan styrkja, einkum til Stríðsárasafnsins. Rafveitan hefur einnig boðið hagstætt orkuverð en Snorri hélt því fram að munurinn þar væri óverulegur. „Ávinningurinn hefur ekki verið milljónatugir eða tugur.“ Snorri sló þó þann varnagla að ávallt væri erfitt að meta hlutdeild í sameiginlegum kostnaði.

Snorri varaði hins vegar við blikum á lofti framundan. Þótt viðhaldi virkjunarinnar í Búðará hefði verið ágætlega sinnt væri samt tækjakosturinn kominn til ára sinna. Til dæmis þyrfti að kaupa búnað til að geta fjarstýrt henni. „Það er ljóst að fjárfesting og aukinn rekstrarkostnaður er sýnilegur.“

Hann sagði strangar reglur og eftirlit gilda um dreifiveitur, mikil vinna væri fólgin í fundahöldum og skýrslugjöf. Þar þyrfti einnig starfsfólk með sérréttindi til að sinna spennistöðvum. Að auki þyrfti að sinna endurbótum á kerfinu betur en gert hefði verði síðustu ár. Áætlað er að þetta kosti 5-10 milljónir aukalega á ári.

Dýrt að taka við þjónustunni sem Landsvirkjun veitir

Hvað söluna varðar þá hefur Rafveitan tapað 15% viðskipta sinna síðustu fjögur ár. Stefnan sé að ekki sé rétt að ráðast í samkeppni á landsvísu við stærri raforkufyrirtæki. Rafveita Reyðarfjarðar kaupir 95% þeirra orku sem hún selur aftur til notenda á markaði. Frá árinu 2005 hefur Landsvirkjun séð um að mata orkukerfi Rafveitunnar, dagleg innkaup á orku og jöfnunarábyrgð, það er að ráðstafa mismun milli keyptrar og seldrar orku. Landsvirkjun hefur sagt upp samningi um þessa þjónustu og ekki ljáð máls á endurnýjun, eftir sem Austurfrétt kemst næst. Snorri benti á að í staðinn þurfi að ráða sérhæft starfsfólk til að stýra sölunni. „Það er ljóst að það mun reynast okkur kostnaðarsamt að taka yfir þennan þjónustusamning sem leystur hefur verið með hagkvæmum hætti af Landsvirkjun.“

Áætlaður kostnaðarauki við að Rafveitan sjái um kaup og sölu á markaði sjálf er talinn 10-15 milljónir króna á ári. „Við sjáum ekki fyrir okkur að svona eylenda hafi mikinn rekstrargrundvöll til framtíðar. Kostnaðurinn eykst ef við ætlum að gera þetta sómasamlega og tryggja öryggi rekstrarins. Þetta snýst ekki bara um kaplana heldur líka raforkumarkaðinn. Á því sviði höfum við ekki næga sérfræðiþekkingu og slíkt fólk liggur ekki á lausu.

Það felst í því áskorun að Landsvirkjun vill ekki lengur þjónusta okkur. Ef við ætlum að reka Rafveitu Reyðarfjarðar með reisn þurfum við að gera það með meiri tilkostnaði en gert hefur verið. Reksturinn verður þá í kringum núllið en ekki 10-15 milljóna hagnaður. Við tökum líka áhættu. Þótt eitthvað hafi gegnið vel í fortíðinni er ekki þar með sagt að það verði svo um eilífð.“

Möguleiki á hærra verði með öðrum aðferðum

Snorri sagðist telja að söluandvirði eignanna, samanlagt 570 milljónir króna eða 410 milljónir eftir skatta, væri gott eða sautjánföld framlegð Rafveitunnar. Hömlur eru á sölu dreifiveitunnar en lögum samkvæmt eiga þær að vera minnst að 50% í eigu opinberra aðila.

Samningurinn við Orkusöluna felur í raun í sér yfirtöku á raforkuviðskiptum Reyðfirðinga. Snorri benti á í honum væri ákvæði um að ef íbúar og fyrirtæki segðu sig úr viðskiptum lækkaði söluandvirðið í hlutfalli við það. Þess vegna væri það hagur samfélagsins að halda áfram viðskiptum við Orkusöluna, að minnsta kosti um hríð, ef af samningunum verður.

Á fundinum var meðal annars spurt út í hvernig tryggt væri að eins gott verð fengist fyrir Rafveituna og kostur væri. Bæði Snorri og Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, viðurkenndu að mögulega hefði mátt fara aðrar leiðir til að hámarka söluandvirðið. Meira væri tekið með í reikninginn, skilyrði um eignarhald dreifiveitna settu sölunni skorður auk þess sem horft hefði verið til þess að nýir eigendur gætu þjónustað Reyðfirðinga.

„Allir bæjarfulltrúar vilja að þetta sé í opinberri eigu því rafmagn er meðal okkar grunninnviða. Þess vegna er horft til þessara fyrirtækja. Rarik er með starfsstöð og vinnuflokka á Austurlandi auk þess að hafa aðstoðað Rafveitu Reyðarfjarðar. Við horfum til þess,“ sagði Jón Björn og bætti viðað hann væri sannfærður um að verðið væri sanngjarnt.

„Ef ætlunin væri bara að hámarka verðið væri mögulega hægt að hugsa sér aðra aðferðafræði. Það er samt á hreinu að þann kostnað yrðuð þið að borga sem kaupendur að orku til framtíðar með hærra verði. Hluti af þessu verkefni hefur verið að fá sanngjarnt verð og tryggja að þetta verði ekki með þeim hætti að það skerði réttindi íbúanna.“

Rafveitan ekki verið skilin eftir

Nokkrir fundargesta lýstu þeirri skoðun að rekstri Rafveitunnar hefði verið illa sinnt síðustu ár og ekki náð því út úr henni sem hægt væri. Eins spurðust þeir fyrir um mögulega stækkun virkjunarinnar, einkum með nýjum búnaði. Spurningum um stækkunarmöguleikana var ekki svarað sérstaklega en Jón Björn hafnaði því að fjármunir hefðu verið sognir út úr rekstrinum og Rafveitan skilin eftir. Hún hefði verið rekin af fullum heiðarleika.

Spurningu um hvort hætta væri á að rafstöðin yrði rifin með sölunni svaraði Eydís Ásbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, á þann hátt að viðhald rafveituhússins væri tryggt og það myndi standa. Í framsöguræðu sinni kom Snorri inn á að í óveðrinu í síðustu viku hefðu Reyðfirðingar orðið rafmagnslausir eins og aðrir. Rafveitan megnaði ekki að veita bænum varaafl í slíkum tilvikum.

Hvatti til að fresta sölunni

Einn fundargesta, Agnar Bóasson, skoraði á bæjarstjórn að aflýsa sölunni og slá henni á frest. Hann uppskar mikið lófaklapp fyrir það. Annar fundargestur, Sigurður Baldursson, hvatti hins vegar bæjarstjórnina til að selja Rafveituna hið snarasta miðað við þær tölur sem fram hefðu komið. Hann bætti jafnframt við að nokkrum sinnum áður hefði sala Rafveitunnar verið rædd en aldrei hefðu komið fram skýringar eins og nú.

Ákvörðun um framtíð Rafveitunnar verður, sem fyrr segir, tekin á bæjarstjórnarfundi síðar í dag. Jón Björn sagðist bera virðingu fyrir þeim skoðunum sem fram hefðu komið á fundinum og í skeytum sem bæjarfulltrúum hefðu borist síðustu daga. Hann sagði ákvörðunina ekki léttvæga en ítrekaði rökin sem lægju að baki væntanlegri sölu. Ákvörðunin yrði tekin af heilindum. Hann sagðist gjarnan hafa kosið að staðan væri önnur á íslenskum raforkumarkaði, en svo væri ekki og staðan nú reyndist litlum einingum erfið.

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, lýsti í lokaorðum vonbrigðum með að aðallega hefði verið rætt um rafstöðina, sem skilaði níu milljónum inn í reksturinn, en lítið um dreifinguna og söluna sem hvor um sig skilaði 140 milljónum. Bregðast þyrfti hratt við því Landsvirkjun hefði sagt upp samningi sínum. „Málið er að Landsvirkjun hefur sagt stopp, að við sitjum ein í þessum orkukaupabraski. Við þurfum að leysa það strax.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar