Þurfið ekki sérfræðing að sunnan til að segja ykkur að það er óhollt að búa í heilsuspillandi húsi
Rannsóknir sýna að óþægindi í öndunarfærum eru algengari meðal þeirra sem búa í húsnæði sem er sýkt af myglusvepp heldur en annars. Viðbrögðin eru mismunandi á milli einstaklinga. Áætlað er að ofvöxtur myglu sé í 3-7% íslensks húsnæðis.
„Að búa við raka, sagga og myglu er heilsuspillandi. Það þarf engan sérfræðing að sunnan eða stóran fund til að segja ykkur að það er óhollt að búa í heilsuspillandi húsnæði,“ sagði Mikael V. Clausen, sérfræðingur í barnalækningum og ofnæmislækninum barna, á íbúafundi á Egilsstöðum á fimmtudag.
Hann vísaði til fræðigreina og alþjóðlegra rannsókna sem sýna að 4-7 sinnum meiri líkur séu á að astmi versni við að búa í húsum þar sem raki og mygla þrífast, líkurnar á kvefi eru fimmfalt meiri, á hvæsiöndun barna átta sinnum meiri og á hósta 2-7 sinnum meiri. Þeir sem alast upp í slíkum húsum er hættara við astma síðar á lífsleiðinni.
Hluti af vistkerfinu
Mikael lagði áherslu á að örverur og afurðir myglusveppa væru í eðli sínu hluti af vistkerfi okkar. Rannsóknir sýndu til dæmis að börn sem alast upp í sveit og komast í tæri við fjölbreytta gerlaflóru eru ólíklegri til að fá astma og heldur en önnur. Of mikið hreinlæti getur brotið niður mótspyrnu líkamans við hann fær ekki þá örvun sem hann þarf til að viðhalda vörnunum.
Forsendan er samt jafnvægi í vistkerfinu. „Þær forsendur eru ekki til staðar á Egilsstöðum eða annars staðar þar sem hús hafa skemmst. Rakinn breytir vistkerfi hússins.“
Rannsókn sem gerð var fyrir árið 2007 leiddi í ljós ofvöxt myglu í 3-7% íslenskra húsa. Mikael varaði við að hlutfallið kynni að vera hærra í ljósi þeirra byggingaaðferða sem viðgengust um það leyti. Þá þyrftu Íslendingar að hugsa út í hvernig þeir byggi hús sýn.
„Við erum með raka og verðum að hugsa um það hvernig við byggjum. Flöt þök eru líklegri til að halda raka og leka sem samt höldum við áfram að byggja hús með flötum þökum!“
Váin ein getur verið heilsuspillandi
Mikael treysti sér ekki til að svara á afgerandi hátt spurningum fundagesta um hversu hátt hlutfall myglugróa í loftinu þyrfti að vera til að íbúar ættu að flytja út. Það sé mismunandi eftir loftslagi hvers landssvæðis og ofnæmiskerfi einstaklingsins.
Hann sagði að menn gætu verið rólegri ef myglan væri ekki sjáanlegri. Það yrði samt að ganga í að laga húsin í Votahvammi sem fyrst. „Váin ein og sér getur verið heilsuspillandi.“
Hann sagði að ekki þyrfti sérstakar heilsufarsrannsóknir í kjölfar vandamálanna við íbúðirnar á Egilsstöðum og Reyðarfirði sem ÍAV byggði. „Vandamálið er þekkt. Mygla er heilsuspillandi. Þess vegna þarf að laga húsin. Ein rannsókn í viðbót sem sannar það breytir engu.“