Utankjörfundaratkvæðagreiðsla um sameiningu í fullum gangi

Mánuður er í dag liðinn síðan hægt var að byrja að kjósa utankjörfundar í kosningum um sameiningu Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Formaður samstarfsnefndar sveitarfélaganna hvetur þá sem kjósa utan svæðisins til að gera það tímanlega.

„Við höfum ekki fengið neinar fregnir enn af því hvernig kosningin gengur en við höfum fengið fyrirspurnir um hvar hægt sé að kjósa. Því er greinilegt að fólk veltir þessu fyrir sér,“ segir Björn Ingimarsson, formaður nefndarinnar og bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Hægt er að kjósa hjá sýslumönnum um land allt og sendiráðum Íslands erlendis. Þá er hægt að kjósa á skrifstofum sveitarfélaganna fjögurra á opnunartíma og á Bókasafninu á Egilsstöðum milli klukkan 15 og 18 alla virka daga. Opnunartímarnir þýða að hægt er að kjósa utan kjörfundar til og með föstudeginum 25. október.

Kjósendur þurfa síðan sjálfir að koma atkvæðum sínum til kjörstjórna. „Við höfum lagt áherslu á að koma upplýsingum um utankjörfundaratkvæðagreiðsluna rækilega til skila, þannig að til dæmis námsmenn átti sig á að þeir þurfi fyrst að fara til sýslumanns, síðan koma atkvæðinu sjálfir til skila,“ segir Björn.

Upplýsingar um hvert á að senda atkvæðið og hvernig fást þar sem kosið er. Kosningin sjálf verður síðan laugardaginn 26. október.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.