Útbreiðsla mislinga stöðvuð

Útlit er fyrir að tekist hafi að hefta frekari útbreiðslu mislinga, sem fyrst greindust í einstaklingi sem kom austur til Egilsstaða með áætlunar flugi um miðjan febrúar. Læknir segir heilbrigðisfólk og almenning hafa sýnt samstöðu í að verja sig gegn veirunni.

„Ég reikna með að þetta sé búið þótt enn sé möguleiki að við fáum tilvik af vægum einkennum sem eru þá trúlega vegna bólusetningar,“ segir Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA).

Embætti landlæknis sendi í dag frá sér tilkynningu um að líklegast hafi tekist að stöðva mislingafaraldurinn þar sem þrjár vikur séu liðnar frá síðasta smiti. Fjórir greindust með staðfesta mislinga og þrír með væga mislinga en þá er um að ræða bólusetta einstaklinga sem hafa komist í tæri við smitaðan einstakling. Þeir smita ekki út frá sér. Þá hafa nokkrir greinst með mislingalík einkenni í kjölfar bólusetningar en þau eru ekki alvarleg.

Eftir að smituðum einstaklingum tók að fjölga í byrjun mánaðarins var gripið til víðtækra bólusetninga auk þess sem einstaklingar í áhættu voru settir í sóttkví. Á starfssvæði HSA voru bólusettir 786 einstaklingar og rúmlega 40 einstaklingum var haldið í sóttkví. Síðasti dagur einangrunar er í dag svo á morgun eiga allir sem verið hafa í sóttkví að vera frjálsir ferða sinna á ný.

Á næstunni verður farið yfir viðbrögð við mislingafaraldrinum, sem er sá umfangsmesti hérlendis í 40 ár. Pétur segir að faraldurinn hafi ýtt bæði við almenningi og heilbrigðisstarfsfólki.

„Á margan hátt var þetta holl og góð áminning um að sjúkdómar sem við höfum ekki séð áratugum saman eru til. Við slíkar aðstæður er árvekni okkar heilbrigðisstarfsmanna brýn og mikilvæg en líka árvekni þjóðar og samstaða meðal hennar um að verja sig sem gert er með bólusetningu.“

Horfið hefur verið frá sérstöku fyrirkomulagi bólusetninga en samkvæmt tilkynningu frá HSA geta þeir sem vilja fengið bólusetningu gegn mislingum. Bólusett er á heilsugæslustöðvum en nauðsynlegt að panta tíma fyrirfram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.