Útihúsin að Unaósi ekki endurbyggð að svo stöddu

Brunabætur þær sem fengust í kjölfar mikils bruna á útihúsum að Unaósi í Hjaltastaðaþinghá verða nýttar til hreinsunar brunarústa annars vegar og endurbætur og lagfæringar á íbúðarhúsinu á staðnum. Útihúsin rísa mögulega aftur síðar meir.

Samkomulag þessa efnis var gert fyrr í mánuðinum af hálfu landeigendans, Ríkiseigna, og ábúenda og byggðaráð Múlaþings lagði blessun sína yfir í kjölfarið.

Eldsvoðinn í byrjun mars á síðasta ári eyðilagði fjárhús og hlöðu og allt búfé á staðnum varð eldinum að bráð. Ábúendur höfðu þá aðeins verið með búsetu þar um tiltölulega skamman tíma og tjónið því tilfinnanlegt.

Að því fram kemur í samningi Ríkiseigna og ábúenda duga brunabætur engan veginn fyrir enduruppbyggingu á útihúsunum svo sú fjárhæð fer í hreinsun brunarústa og endurbætur á sjálfu íbúðarhúsinu. Ekki stendur til að endurbyggja hlöðu og fjárhús á næstunni en ábúendur óskuðu eftir að eiga þann möguleika síðar meir og á það var fallist.

Byggðaráð Múlaþings samþykkir gjörninginn fyrir sitt leyti og leggur áherslu að útihúsin verði endurbyggð fyrr en síðar en bókar þó sérstaklega að „áherslur varðandi útleigu ríkisjarða verði teknar til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að tryggja réttindi ábúenda, viðhalda verðmæti ríkisjarða og tryggja búsetu á þeim til framtíðar.

Bærilega gekk að ráða niðurlögum eldsvoðans að Unaósi þegar slökkvilið kom á staðinn en þá hafði eldur geysað um tíma, fellt allt búfé og eyðilagt fjárhús og hlöðu að stærstum hluta. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.