VA tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna
Verkmenntaskóli Austurlands hefur verið tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir samstarf sitt við grunnskóla Fjarðabyggðar um eflingu verknáms. Skólameistari segir samstarfið hafa skilað meiri aðsókn í iðnnám við skólann.„Það er mikill heiður fyrir skólann að hljóta þessa tilnefningu, sömuleiðis fyrir kennara, nemendur og samfélagið hér í Fjarðabyggð,“ segir Eydís Ásbjörnsdóttir, skólameistari VA.
Tilnefningar til verðlaunanna í ár voru tilkynntar á laugardag, alþjóðadegi kennara. Verðlaunin eru veitt í fjórum flokkum og er verkefni VA eitt af þremur sem tilnefnt er í iðn- og verkmenntun.
VA og Fjarðabyggð hafa í hátt í áratug staðið fyrir verkefnum sem miða að aukinni aðsókn í verknám en núverandi fyrirkomulag hefur verið við lýði frá árinu 2021 með stuðningi Fjarðabyggðar og mennta- og barnamálaráðuneytisins. Það felur í sér að nemendur í 9. og 10. bekkjum grunnskólanna eru í átta vikur á haustönn ferjaðir í VA í tíma í verkgreinum sem þeir hafa valið sér.
Síðan skólar hófust í haust hafa tæplega 90 nemendur 10. bekkjar úr Fjarðabyggð komið í VA eftir hádegi alla fimmtudaga. Þeir munu koma í átta skipti áður en nemendur 9. bekkjar taka við síðar í þessum mánuði. „Það er mjög líflegt í skólanum hjá okkur þegar hópurinn mætir í hús.“
Í boði eru Fab Lab, róbótaforritun, véltækni, rafmagnsfræði, húsasmíði, málmsmíði og húð og hár. Grunnskólanemarnir velja sér tvær greinar af þessum. Að sögn Eydísar er mest aðsókn í húsasmíðina og hár og húð.
Í rökstuðningi með tilnefningunni segir að fyrir utan að auka áhuga á iðnnámi auki það samkennd meðal nemenda elstu bekkja grunnskólanna í Fjarðabyggð. Þá sýni kannanir mikla ánægju meðal bæði nemenda og foreldra.
Eydís segist ánægð með árangur verkefnisins. „Við sjáum aukna aðsókn í iðnnám sem við fengum við þetta verkefni.“
Verðlaunin sjálf verða afhent við athöfn á Bessastöðum þann 5. nóvember næstkomandi.