Vaktafyrirkomulagi Fjarðaáls breytt vegna samkomubanns

Þrjú austfirsk fyrirtæki eru á lista heilbrigðisráðuneytisins yfir þau fyrirtæki sem fengið hafa undanþágur frá samkomubanni til að halda uppi þjóðhagslega mikilvægri starfsemi. Ströng skilyrði fylgja undanþágunum. Hjá Fjarðaáli á Reyðarfirði hafa verið gerðar breytingar á vaktafyrirkomulagi til að bregðast við körfunum.

„Með þessari undanþágu er verið að staðfesta að við séum með starfsemi sem er þjóðhagslega mikilvæg,“ segir Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa Fjarðaáls.

„Við erum ekki í þeirri stöðu að geta slökkt á starfsemi og kveikt á henni daginn eftir. Ef við þurfum að stöðva framleiðslu getur tekið heilt ár að koma henni aftur í gang. Það hefur í för með sér mikið tjón fyrir atvinnulífið, einkum á svæðinu. Það er gott að stjórnvöld sáu það og settu okkur þess vegna á þennan lista.“

Búningsklefarnir hvað erfiðastir

Auk Fjarðaáls eru Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði og Síldarvinnslan í Neskaupstað á listanum. Þau þurfa þó að fylgja ýmsum skilyrðum, svo sem um sóttvarnir, samskiptafjarlægð, að ekki séu meira en 100 manns á skilgreindu svæði né 20 manns um sömu matar-, salernis- eða búningsaðstöðu.

„Á ákveðnum svæðum vinna fleiri en 20 manns en þótt það séu 30 manns í einum kerskála þá dreifast þeir yfir mikið svæði. Við höfum farið í margar aðgerðir til að geta mætt kröfunum. Við höfum skilið að svæði, það eru ekki nema 20 manns í mötuneytinu, flestir fá matinn sendan til sín út á svæði. Það er líka takmarkaður fjöldi í rútunum.

Búningsklefarnir hafa verið hvað erfiðastir, við tókum þá í gegnum helgina. Starfsfólk steypuskálans skiptir um föt á sínu svæði. Þetta eru ýmsar bráðabirgðalausnir.

Við höfum tímabundið tekið upp 12 tíma vaktir í stað átta tíma. Við erum með fjóra vakthópa í stað fimm. Þannig fullmönnum við allar vaktir. Við skiptum einni vaktinni upp. Áður fylltum við upp með því að fólk tók auka- eða bætivaktir á öðrum vöktum en þeirra eigin en við getum ekki blandað hópum þannig núna.“

Starfsmannafjarfundur

Þá fellur Fjarðaál einnig undir skilgreiningu sóttkvíar B, þannig að starfsmaður, sem annars ætti að vera í heimasóttkví, getur eftir ströngum skilyrðum haldið áfram að mæta til vinnu sýni hann engin einkenni covid-19 veirunnar til að halda mikilvægri starfsemi gangandi.

Fjarðaál greip til aðgerða strax um miðjan mars þegar þeir starfsmenn sem gátu unnið heiman frá sér voru sendir heim. Líkt og mörg önnur fyrirtæki hefur Fjarðaál mikið notað fjarfundabúnað og í síðustu viku var haldinn starfsmannafundur á Teams. Um 100 manns hlýddu á forstjórann Tor Arne Berg auk þess sem fundurinn var tekinn upp fyrir þá sem ekki gátu fylgst með þá.

Engar aðgerðir enn til að draga úr framleiðslu

Heimsfaraldur covid-19 veirunnar hefur áhrif á starf Fjarðaáls á fleiri sviðum. Minnkandi eftirspurn eftir vörum um heim allan hefur lækkað álverð enn frekar, en það var þegar lágt vegna mikillar framleiðslu Kínverja.

Engar breytingar hafa verið gerðar á framleiðslu Fjarðaáls, ólíkt hinum tveimur íslensku álverunum sem bæði hafa dregið úr framleiðslu. Dagmar segir þó ekki útilokað að breytingar verði á framleiðslu Fjarðaáls safnist upp miklar álbirgðir. Eftirspurn eftir melmi hefur minnkað í Evrópu en haldist óbreytt eftir álvír. Dagmar bendir á að vélinni sem steypir melmið á Reyðarfirði megi breyta þannig hún skili af sér hrááli.

„Helstu áhyggjurnar nú eru af því að það safnist upp miklar birgðir eins og 2008. Það veit enginn hvað kreppan verður löng eða hvernig Kína bregst við. Einhvers staðar við enda ganganna er ljós.“

Hún segir framkvæmdastjórn Fjarðaáls þakkláta starfsfólki álversins sem sífellt þurfi að aðlaga sig nýjum boðum og bönnum í faraldrinum. „Það hafa verið kynntar nýjar reglur og breytingar á hverjum degi. Við erum þakklátust starfsfólkinu okkar fyrir hve mikinn vilja og frumkvæði það hefur sýnt til að taka þátt í öllum þessum breytingum. Það stendur sig vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar