Valgerður Gunnars: Við mælumst með fylgi sem ekki er boðlegt
Sjálfstæðismenn verða að snúa bökum saman og tala upp flokk sinn og formann til að ná árangri í komandi þingkosningum. Umræðan snúist öll um einn mann en ekki boðskapinn.
Þetta kom fram í máli frambjóðenda flokksins á opnum fundi á Egilsstöðum í síðustu viku. Mikil umræða varð um stöðu flokksins, sem hefur gengið illa í síðustu skoðanakönnunum og stöðu formannsins Bjarna Benediktssonar.
„Við verðum að taka höndum saman og tala fylgið aftur til okkar. Við mælumst með fylgi sem er ekki boðlegt fyrir okkur,“ sagði Valgerður Gunnarsdóttir, sem skipar annað sæti listans á fundinum. framsöguræðu sinni.
„Menn verða að standa saman um sinn formann. Ef við verðum að ná árangri verðum við að slá á þetta tal. Við verðum að hætta að láta segja okkur að formaðurinn sé ómögulegur.“
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, sem er í þriðja sæti listans sagði að „þeir sem hefðu lagt í helför gegn Bjarna“ hefði tekist það. „Við látum fífla okkur í þessari umræðu. Við höngum alltaf föst í að tala um einn mann enn ekki boðskapinn.“
Út á hvað fær Framsókn fylgið?
Valgerður gagnrýndi aðra flokka fyrir innantóm loforð. „Við horfum á Framsókn sópa að sér fylgi og út á hvað? Þeir segjast ætla að leysa skuldavandann en þegar tillögur þeirra eru grandskoðaðar sést að þær standast ekki og þeir geta ekki svarað því hvar þeir ætla að finna 240 milljarða króna.“
Hún viðurkenndi að niðurstöður síðustu kannana hefði „ekki verið þær sem við áttum von á.“ Sérstaklega í ljósi þess að í landinu hefði verið ríkisstjórn sem ekki hefði unni ð á vandanum þótt hún fengi tækifæri til þess.“
Fjársveltur framhaldsskóli
Valgerður er skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Hún notaði tækifærið til að benda á stöðu framhaldsskólanna í landinu sem hefðu verið „fjársveltan.“
„Ráðuneytið krefst þess að fjárhagsáætlanir séu hallalausar þótt það viti að það sé ekki hægt ef við eigum að sinna lögboðinni þjónustu. Ég hef sagt það við menn úr ráðuneytinu að þeir geti þakkað fyrir að við höfum verið kurteis en ekki í fjölmiðlum eins og fólkið úr heilbrigðisgeiranum.“
Þá bætti hún við að tengja þyrfti betur íslenskt nám við atvinnulífið. „Bóknámið er ódýrast og því eru allir lærðir á bókina en á móti eykst brottfallið.“