Vara við stórtækum áformum um vindorkuver austanlands

Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) vara við stórtækum áformum um vindorkuver í fjórðungnum og kallar aukinheldur eftir endurskoðun á áhrifaþáttum smávirkjana.

Ofangreint var bókað á aðalfundi samtakanna sem fram fór þann 18. mars síðastliðinn. Stór hluti þess fundar fór í umræður um orkumál á Austurlandi en stjórn telur óásættanlegt að fórna náttúruperlum og víðerni til orkunýtingar og dreifingar.

Allnokkur vindorkufyrirtæki hafa sýnt áhuga að reisa vindorkugarða hér austanlands síðustu misseri og þó nokkur slík verkefni komin á rekspöl bæði í Fljótsdalnum og í landi Múlaþigns þó reyndar sveitarstjórn Múlaþings hafi úrskurðað fyrir nokkru að slík verkefni hljóti ekki brautargengi fyrr en íslensk stjórnvöld hafa sett línu, lög og reglur um vindorkusvæði og nýtingu til framtíðar.

En fleira situr í stjórnarmönnum NAUST því þar hafa menn einnig áhyggjur af töluverðum fjölda smávirkjana sem til stendur að byggja hér og þar á Austurlandi í náinni framtíð en sumar þeirra í eða við óbyggð víðerni.

Í þessu sambandi kallar aðalfundur NAUST eftir að endurskoðaðir verði allir áhrifaþættir svokallaðra smávirkjana“ allt að 9,9 MW. Umhverfisáhrif og umfang virkjana innan þessa stærðarflokks eru afar breytileg eftir staðháttum. Því eru megavött ómarktækt viðmið.

Náttúruverndarsamtök Austurlands gera kröfu um að allar nýjar virkjanir fari í umhverfismat og inn í rammaáætlun og að undanþágur verði aðeins veittar í tilvikum minniháttar virkjana til heimilisnota og smærri atvinnurekstrar til sveita. Stærsta fyrirhugaða vatnsaflsvirkjunin á Austurlandi um þessar mundir er virkjun Arctic Hydro á Sviðinhornahraunum og í Hamarsdal. NAUST hvetur sérstaklega til friðunar þeirra óbyggðu víðerna auk annarra sem eftir eru í fjórðungnum.

Fleiri hundruð vindmyllur rísa á Austurlandi á næstu árum og áratugum ef allar slíkar hugmyndir sem á teikniborðinu eru ganga upp. Mynd Landsvirkjun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.