Varað við snjóflóðahættu á Fagradal
Vegagerðin sendi í kvöld frá sér tilkynningu um mögulega snjóflóðahættu á Fagradal í nótt. Hætta er ekki talin í byggð. Gul viðvörun er gengin í gildi á Austurlandi.Tilkynningin er sú fyrsta sem send er áskrifendum í SMS-kerfi Vegagerðarinnar. Í haust var Fagradal bætt við þá þjónustu en hægt er að skrá símanúmer hjá Vegagerðinni til að fá send skilaboð um mögulega snjóflóðahættu þar.
Í yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar að segir að eins og er sé ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af aðstæðum í byggð en fylgst sé vel með aðstæðum. Lítill snjór sé almennt í fjöllum.
Klukkan 20:00 í kvöld gekk í gildi gul viðvörun á Austfjörðum sem gildir til klukkan níu á sunnudagskvöld. Um það leyti tók að élja víða á svæðinu og bæta í vind, sem hafði annars verið stilltur í dag.
Gul viðvörun fyrir Austurland að Glettingi tekur gildi klukkan sex í fyrramálið og gildir í sólarhring. Á báðum stöðum er spáð talsverðri snjókomu og vaxandi vindi þegar líður á daginn, með ófærð einkum á fjallvegum.
Vegna Alþingiskosninganna munu Vegagerðin og sveitarfélögin gera það sem hægt er til að halda vegum í byggð opnum þannig kjósendur komist á kjörstað.