Varasamt að ætla að „bjarga“ villtum dýrum

Varasamt getur verið fyrir almenning að nálgast villt dýr sem virðast eiga í vanda, jafnvel þótt fólki gangi ekki annað en gott til. Slíkt getur jafnvel aukið á vandann, til dæmis ef móðir fælist frá afkvæmi sínu.

„Við fengum tilkynningu um selkóp í Reyðarfirði á sunnudagskvöld. Hann hafði orðið fyrir mikilli truflun, fólk var að mynda sig með honum, klappa og jafnvel halda á honum sem er hið versta mál,“ segir Hálfdán Helgi Helgason, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.

Hættan var í þessu tilfelli tvíþætt. Annars vegar að selkópurinn myndi glefsa eða bíta í þá sem reyndu að nálgast hann, hins vegar að móðir hans myndi fælast og yfirgefa kópinn fyrir fullt og allt.

„Það er skiljanlegt að fólk hafi samúð með svona umkomulausum kóp því urtan sást hvergi. Í svona tilfellum get þær hins vegar fælst og ekki snúið til baka. Núna um mánaðamótin eru þeir orðnir nokkuð stálpaðir og þá koma urturnar sjaldnar til að gefa þeim að drekka, kannski bara á næturnar.

Sé kópurinn ekki orðinn nógu stálpaður til að geta séð um sig sjálfur er úti um hann,“ segir Hálfdán. Hann bætir við að í þessu tilfelli virðist ekki hafa hlotist skaði af því síðar um kvöldið sást til kópsins veiða sér fisk í flæðarmálinu.

„Ef fólk sér selkóp þá á það að halda sig fjarri,“ segir Hálfdán. Samkvæmt leiðbeiningum Selaseturs Íslands er fólki ráðlagt að koma ekki nær selum en sem nemur 100 metrum.

En þessar umgengnisreglur eiga ekki bara við um selkópa. „Þetta gildir eiginlega um öll villt dýr. Ef fólk sér dýr sem það telur vera í vanda, hvort sem það eru hreindýr föst í girðingu, móðurlausir selkópar eða grútarblautur fuglar, á að hafa samband við lögreglu sem síðan hefur samband við stofnanir eins og Matvælastofnun og sveitarfélagið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar