Varðskip tekur þátt í mengunarvarnaæfingu á Reyðarfirði í dag
Varðskipið Þór er komið til Reyðarfjarðar til að taka þátt í stórri mengunarvarnaæfingu við höfnina þar í dag.Æfingin hefst klukkan 12 og stendur fram eftir degi. Hún fer bæði fram á landi og utan við hafnarkantinn.
Í henni taka þátt Landhelgisgæslan, Umhverfisstofnun, Samgöngustofa, Fjarðabyggðarhafnir, Heilbrigðiseftirlit Austurlands og slökkvilið Fjarðabyggðar. Hún er hluti af árlegri æfingaáætlun ríkisstofnananna.
Æfingunni er ætlað að þjálfa starfsmenn hafnarinnar í að nota mengunarvarnabúnað hennar og æfa sameiginlegt viðbragð ef upp kemur stórt mengunaróhapp innan eða nærri Fjarðabyggðarhöfnum.