Varla rétt leið að færa fólk með lögregluvaldi í bólusetningar

Sóttvarnalæknir telur ekki rétt að lögleiða það að börn skuli færð til bólusetningar gegn farsjúkdómum á borð við mislinga. Áhrifaríkara sé að bæta eftirlit með bólusetningum.

„Ég vil að allir séu bólusettir en ég er ekki viss um að við náum takmarkinu með að gera það að að skyldu,“ sagði Þórólfur Guðnason í fyrirlestri sem hann hélt nýverið á Reyðarfirði í tilefni af 20 ára afmæli Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Borgarstjórinn í New York skipaði í vikunni íbúum ákveðinna svæða í borgunni að láta bólusetja sig gegn mislingum, annars eigi þeir yfir höfði sér fjársektir. Það sama gildir um skóla og stofnanir sem taki við óbólusettum einstaklingum.

Gæti fælt þá sem eru hikandi

Í fyrirlestri sínum benti Þórólfur á að erlendis hefði bólusetning verið lögleidd, þannig hægt sé að beita viðurlögum ef skrópað er í hana, en það hafi ekki gefið góða raun. Þeir sem trúi því að bólusetningar séu skaðlegar láti ekki segjast, hvað sem tautar og raular.

„Á Íslandi eru 2% íbúa á móti bólusetningum og svo er smá hópur sem er hikandi. Það er vonlaust að ræða við þennan hóp sem er á móti bólusetningum. Ég hef reynt það í gegnum árin, það næst ekkert samtal.

Við þurfum fyrst að bæta okkur í að ná krökkunum með góðu áður en við förum að beita hörðu. Slíkt gæti gert hópinn sem er hikandi mótfallinn. Þá fáum við bara annan hóp til að berjast við.“

Þórólfur benti á að mæting í bólusetningar dali á ákveðnum aldursskeiðum, aðallega 18 mánaða og fjögurra ára þar sem hún fari niður í 90%, annars sé hún 95-97%.

Hann sagði nærtækast að bæta ferla við innköllun einstaklinga til bólusetningar. Þeir eru mismunandi milli heilsugæslustöðva. Sums staðar sé ábyrgðin alfarið foreldranna að bóka nýjan tíma ef sá tími sem fyrst er bókaður gengur ekki upp. Takist ekki að bæta innköllunarkerfið þurfi að skoða skylduúrræðið en erfitt sé að sjá hver nákvæmlega eigi að vera ábyrgur fyrir að fara yfir allar bólusetningar og svo sækja þá sem ekki mæta.

Kæruleysi eftir góðan árangur

Þórólfur sagði að bólusetningar væru að vissu leyti fórnarlamb eigin velgengni, fólk væri óttaslegið og krefðist þegar illa gengi að hefta útbreiðslu sjúkdóma en ætti svo til að sofna á varðbergi og jafnvel efast um gagnsemi bólusetninga þegar búið væri að hefta veirur.

„Bæði almenningur og heilbrigðisstarfsmenn verða andvaralausir því það er ekkert sem viðheldur óttanum. Læknanemar sjá varla lengur alvarlega veikt barn. Þegar ég var í námi á Barnaspítala Hringsins komu börn með heilahimnubólgu á hverri vakt og 5-10 dóu árlega. Þetta hvarf alveg eftir að bólusetning var tekin upp árið 1989.

Við fengum 15-20 tilfelli árlega af menigokokkum. Dánartíðnin er 10% sem þýðir að 1-2 ungmenni dóu árlega. Byrjað var að bólusetja gegn þeim árið 2002 og við fáum núna 1-2 tilfelli á ári.“

Næst bólusett gegn hlaupabólu

Í erindi sínu greindi Þórólfur, sem ólst upp á Eskifirði til níu ára aldurs, frá því að hann hafi lagt til við heilbrigðisráðherra að teknar verði upp almennar bólusetningar gegn hlaupabólu.

„Það er til bóluefni sem sýnt hefur verið fram á að öruggt og áhrifaríkt og við teljum réttlætanlegt að hefja almennar bólusetningar. Á hverju ári eru nokkur börn hérlendis sem veikjast alvarlega og í fyrra dó barn af völdum hlaupabólu. Flestir fá veikina fyrir 10 ára aldur en fullorðnir geta veikst alvarlega ef þeir hafa ekki fengið veikina sem börn.“

Eins er til skoðunar að bólusetja verðandi mæður gegn kikhósta undir lok meðgöngu þannig nýburar séu verndaðir af mótefni móður fyrstu vikurnar. „Þetta hefur reynst vel og ég held að við ættum að byrja á þessu fljótlega. Þau börn sem fara verst út eru þau sem eiga mæður með lítið mótefni.“

Hann taldi hins vegar ólíklegt að teknar yrðu upp skyldubólusetningar gegn inflúensu, þátttaka hefði ekki verið góð þar sem það hefði verið reynt. Þá er verið að kanna útbreiðslu rótarveiru, sem sums staðar er bólusett gegn en Þórólfur taldi ekki útbreidda hérlendis en hún veldur niðurgangi hjá börnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar