Vatnslaust á Seyðisfirði í dag eftir að lögn gaf sig

Viðbúið er að Seyðfirðingar verði án kalds vatns fram á nótt eftir að stofnlögn gaf sig við Fjarðaselsvirkjun í morgun.

Að sögn Aðalsteins Þórhallssonar, framkvæmdastjóra HEF veitna, fór aðrennslispípa fyrir nýrri virkjunina þar í sundur og rauf um leið vatnslögn HEF en lagnirnar skarast skömmu fyrir neðan inntakslón Fjarðaselsvirkjunar.

„Það virðist hafa orðið bilun í virkjunarlögninni sem er á kafi í jarðvegi. Það hafði vaknað grunur um bilun þar nýverið en ekkert sem vakti teljandi áhyggjur,“ segir Aðalsteinn.

Verið er að meta umfang skemmdanna en af myndum má sjá að töluverður jarðvegur hefur hrunið fram frá lögninni.

Undirbúningur að viðgerð er hafinn en þótt reynt verði að vinna hana eins hratt og kostur er segir Aðalsteinn viðbúið að hún standi fram á nótt. Á meðan verði kaldavatnslaust á Seyðisfirði.

Mynd: Ómar Bogason


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar