Veðurspár fyrir níu þúsund íslensk lögbýli og örnefni
Veðurvefurinn Blika.is hefur bætt við spáþjónustu sína þar sem á honum má nú fletta upp veðurspám fyrir níu þúsund staðsetningar, þar á meðal öllum lögbýlum landsins. Nákvæmari spá gagnast bæði austfirskum bændum og ferðalöngum.Á vefnum má nú auk lögbýlanna nálgast spár fyrir fjölmörg eyðibýli, sumarhúsalönd, golfvelli, veiðihús, eyjur, fjallatinda, skála, gististaði og önnur örnefni. Möskvar Bliku eru 3 km meðan spár norsku veðurstofunnar, sem margir Íslendingar hafa nýtt sér á yr.no, eru með 12 km milli reiknipunkta.
„Við biðum lengi eftir að Veðurstofan byði upp á svipaðan vef og YR því mörgum þykir hentugt að geta leitað eftir sínum stað. Veðurstofan er með 100 staði í sínu safni en þeir eru stundum langt frá því þar sem fólk er á ferðinni.
Spár norsku veðurstofunnar byggja á líkani sem keyrt er fyrir allan heiminn í grófri upplausn og lítið tillit tekið til hæðar. Í líkaninu er langt milli reiknipunkta þannig spárnar verða ónákvæmari.
Við og Veðurstofa Íslands reiknum út frá fínni upplausn. Munurinn okkar á milli stafar aðallega af því að spágrunnur Veðurstofunnar kemur frá evrópsku veðurreiknimiðstöðinni en okkar frá bandarísku veðurstofunni. Það getur valdið ósamræmi. Stundum er okkar spá nákvæmari en Veðurstofunnar en öfugt,“ segir Sveinn Gauti Einarsson. Hann er annar tveggja starfsmanna Veðurvaktarinnar sem rekur Bliku en hinn er faðir hans, Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Sólarhringsspáin nákvæm
Veðurspár eru alltaf spár en ekki heilagur sannleikur og stundum má lítið út af bregða til að veðrið verið allt öðruvísi en spáð var.
„Spá 24 tíma fram í tímann er orðin nokkuð nákvæm. Það sem erfiðast er að spá fyrir um eru skúrir eða þoka. Eftir þann tíma minnkar nákvæmnin og oft er lítið að marka spár lengra en 4-5 daga fram í tímann.
Við ætlum að bæta við úrkomulíkönum í okkar spá. Það er alltaf breytileiki í hlutunum, þannig getur verið 20% líkur á úrkomu þótt við spáum henni ekki. Hún er ekki líkleg en er möguleiki,“ segir Sveinn Gauti.
Þurrkatíðin á enda
Þannig er til dæmis staðan fyrir Austurland á morgun þar sem spáð er skúrum. „Það er útlit fyrir skúrir á morgun en það er erfitt að segja til um magnið þegar svo er því það er erfitt að spá fyrir um á hvaða punkt þær hitta,“ útskýrir Sveinn Gauti.
Austfirðingar hafa í júnímánuði búið við mikinn þurrk og almennt frekar kalt veður. Sveinn Gauti telur líklegt að þurrkatíðin sé úr sögunni. „Það hefur verið háþrýstisvæði yfir Grænlandi og við slíkar aðstæður getur orðið frekar kalt eða vel heitt. Við eigum að vera komin út úr hinum miklu þurrkum, sem stóðu allan júní. Það tímabil kláraðist í síðustu viku. Framundan eru meiri líkur á lægðum og breytileika með vætu.“
Veðurvaktin opnaði einnig nýverið spávef á ensku á slóðinni wet.is. „Markhópur okkar eru allir landsmenn og ferðamenn. Ég held að allir Íslendingar kíki einhvern tíman á veðurspár. Við urðum varir við mikla aukningu um vefinn okkar þegar við bættum lögbýlunum við. Við vitum ekki hvort það eru bændur eða ferðafólk að nýta sér þjónstuna. Við sjáum líka að fólk á leið í sumarbústaði notar síðuna mikið.“