Veðurspárnar stjórna ferðamönnunum í sumar
Veðurspár sumarsins geta haft mikil áhrif á hvaða landshlutar fá til sín ferðamenn í sumar. Ferðaþjónustufyrirtæki stóla á innlenda ferðamenn sem láta oft veðrið ráða ferðalögum sínum.Þetta kom fram í viðtali Upplýsingaþáttar sjónvarpsstöðvarinnar N4 um kórónaveiruna við Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar, í gær en þátturinn er sendur út klukkan 17:00 þriðjudaga og fimmtudaga.
Jóna ræddi þar áhrif heimsfaraldursins á austfirsk fyrirtæki sem hún sagði vera í „endalausri breytingastjórnun“ um þessar mundir. „Það er bæði verið að bregðast við stöðunni eins og hún er í dag en líka reynt að hugsa fram á við, hvað tekur við þegar samkomubanni léttir og hvernig við komum hjólum atvinnulífsins og samfélaganna í gang.“
Ferðaþjónustan er sú grein sem farið hefur hvað verst út úr kreppunni sem faraldurinn hefur valdið. „Ferðaþjónustuaðilar höfðu væntingar til sumarsins eins og það leit út fyrir að verða. Fyrsta áfallið er að gera sér grein fyrir að það verður ekki þannig.
Það hefur mikil vinna verið lögð í að aðlaga rekstur fyrirtækjanna að mismunandi sviðsmyndum. Það er horft til heimamarkaðarins meðan ekki er útlit fyrir að margt fólk verði á ferðinni. Eins og aðrir landshlutar þá hvetjum við fólk til að koma til okkar.
Við erum vön að taka á móti innlendum ferðamönnum því þegar verið hafa góð ferðasumur á Austurlandi hefur það meðal annars verið því Íslendingar hafa heimsótt okkur. Ég held að það séu því ákveðin tækifæri fyrir okkar landshluta,“ sagði Jóna Árný.
Veðrið skiptir þar miklu máli. „Veðurspáin er ein stærsta ógnin við ferðaþjónustu hvað landshluta sem er. Íslendingar stýrast mikið af veðrinu. En við höfum líka marga afþreyingarmöguleika þar sem veðrið þarf ekki að spila stóra rullu.“